Fótbolti

Messi orðinn markahæsti Argentínumaður á HM frá upphafi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi hefur skorað fleiri mörk en nokkur Argentínumaður á lokamóti HM.
Lionel Messi hefur skorað fleiri mörk en nokkur Argentínumaður á lokamóti HM. Igor Kralj/Pixsell/MB Media/Getty Images

Lionel Messi varð í kvöld markahæsti leikmaður argentínska landsliðsins á HM frá upphafi þegar hann skoraði fyrsta mark liðsins í öruggum 3-0 sigri gegn Króatíu. Sigurinn kom argentínska liðinu í úrslit og Messi hefur nú skorað ellefu mörk á lokamóti HM.

Messi kom Argentínu í 1-0 forystu þegar hann skoraði af miklu öryggi af vítapunktinum eftir rétt rúmlega hálftíma leik. Hann hafði þó ekki lokið sér af því hann lagði einnig upp þriðja mark liðsins fyrir Julian Alvarez um miðjan síðari hálfleikinn.

Markið sem Messi skoraði var hans ellefta á lokamóti HM, sem gerir hann að markahæsta Argentínumanni HM frá upphafi. Hann hafur skorað einu marki meira en Gabriel Batistuta sem skoraði tíu mörk á þremur heimsmeistaramótum og þremur mörkum meira en Guillermo Stábile og Diego Maradona sem báðir skoruðu átta mörk.

Þá færði Messi sig einnig upp að hlið Ungverjans Sandor Kocsis og Þjóðverjans Jürgen Klinsmann í sjötta sæti á listanum yfir markahæstu menn HM frá upphafi. Allir þrír hafa þeir skorað ellefu mörk á HM, en Kocsis og Klinsmann þurftu þó heldur færri leiki til að skora sín ellefu mörk.

Klinsmann skoraði ellefu mörk í sautján leikjum og Kocsis þurfti aðeins fimm leiki til að skora jafn mörg mörk. Messi hefur hins vegar leikið 25 leiki á HM. Argentínumaðurinn á þó í það minnsta einn leik eftir á sínum HM-ferli til að bæta fleiri mörkum við, sjálfan úrslitaleikinn næstkomandi sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×