Innherji

Al­vot­ech fær tíu millj­arð­a fjármögnun til að greið­a nið­ur lán frá Al­vog­en

Helgi Vífill Júlíusson skrifar
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja.
Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja. NASDAQ

Alvotech hefur gengið frá tíu milljarða króna fjármögnun, jafnvirði um 59,7 milljón Bandaríkjadala, í formi víkjandi skuldabréfa með breytirétti í almenn hlutabréf í Alvotech.

Alvotech mun nýta stærstan hluta fjármögnunarinnar til að gera upp um 50 milljón Bandaríkjadala víkjandi lán, jafnvirði um 7,1 milljarðs króna, frá Alvogen sem tilkynnt var um 16. nóvember. Í samræmi við skilmála Alvogen lánsins, falla áskriftarréttindi lánveitandans að 4 prósenta hlut almennra hluta í Alvotech því niður, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Alvotech mun gefa út skuldabréf til 36 mánaða í formi víkjandi skuldabréfa með breytirétti yfir í almenn hlutabréf og verða skuldabréfin í tveimur flokkum. Flokkur A verður gefin út í íslenskum krónum og ber 15 prósent vexti á ársgrundvelli, sem bætast við höfuðstólinn á hverjum gjalddaga og ávaxtast (svo nefndir PIK vextir) en flokkur B verður gefin út í Bandaríkjadölum og ber 12,5 prósent PIK vexti á ári.

Eigendur skuldabréfanna hafa rétt til þess að breyta upprunalegum höfuðstól auk áfallinna vaxta og ávöxtunar að hluta eða öllu leyti í almenn hlutabréf í Alvotech á föstu gengi, sem er 10 Bandaríkjadalir á hlut. Gengi er nú um átta dalir. Breytiréttinn má nýta að hluta eða öllu leyti þann 31. desember 2023 eða 30. júní 2024.

Ráðgjafar Alvotech við útgáfuna voru Acro verðbréf, Arctica Finance, Arion banki og Landsbankinn.

Alvotech, stofnað af Róberti Wessman stjórnarformanni fyrirtækisins, er líftæknifyrirtæki sem einbeitir sér að þróun og framleiðslu líftæknihliðstæðulyfja fyrir sjúklinga um allan heim.

Alvotech stefnir að því að verða leiðandi fyrirtæki á sviði líftæknihliðstæðulyfja. Féalagið vinnur að þróun átta líftæknilyfjahliðstæða sem nýst geta sjúklingum með sjálfsofnæmis-, augn- og öndunarfærasjúkdóma, beinþynningu eða krabbamein.

Alvotech hefur gert samninga um sölu, markaðssetningu og dreifingu við samstarfsaðila á öllum helstu mörkuðum, í Bandaríkjunum, Evrópu, Japan, Kína, öðrum hlutum Asíu,Rómönsku-Ameríku, Afríku og Mið-Austurlöndum. Meðal samstarfsaðila Alvotech eru Teva Pharmaceuticals, dótturfélag Teva Pharmaceutical Industries Ltd. (markaðsaðili í Bandaríkjunum), STADA Arzneimittel AG (Evrópa), Fuji Pharma Co., Ltd (Japan), Cipla/Cipla Gulf/Cipla Med Pro (Ástralía, Nýja Sjáland, Afríka), JAMP Pharma Corporation (Kanada), Yangtze River Pharmaceutical (Group) Co., Ltd. (Kína), DKSH (Taívan, Hong Kong, Kambódía, Malasía, Singapore, Indonesía, Indland, Bangladess og Pakistan), YAS Holding LLC (Miðausturlönd og Norður Afríka), Abdi Ibrahim (Tyrkland), Kamada Ltd. (KMDA; Ísrael), Mega Labs, Stein, Libbs, Tuteur and Saval (Rómanska-Ameríka) og Lotus Pharmaceuticals Co., Ltd. (Taíland, Víetnam, Filippseyjar og Suður-Kórea).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×