Erlent

„Höggorminum“ sleppt úr fangelsi í Nepal

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sobhraj árið 2011, ásamt eiginkonu sinni sem þá var 22 ára.
Sobhraj árið 2011, ásamt eiginkonu sinni sem þá var 22 ára. epa/Narendra Shrestha

Franska raðmorðingjanum Charles Sobhraj verður senn sleppt úr fangelsinu í Nepal þar sem hann hefur dvalið í nær tuttugu ár. Honum hefur verið skipað að snúa aftur til Frakklands.

Sobhraj, sem hlaut viðurnefnið „höggormurinn“ fyrir hæfileika sinn til að flýja úr fangavist og ginna ungar konur, var umfjöllunarefni sjónvarpsþáttanna The Serpent sem sýndir voru á BBC og Netflix.

Þar var fjallað um morð Sobhraj á ungum ferðalöngum en hann er talinn hafa framið í kringum tuttugu morð á árunum 1972 til 1982, þar sem hann byrlaði fyrir fórnarlömbum sínum, beitti þau ofbeldi og kyrkti.

Eftir að hafa dvalið í tuttugu ár í fangelsi á Indlandi fyrir að eitra fyrir frönskum ferðamönnum var Sobhraj handsamaður í Nepal fyrir morðin á ferðalöngunum Connie Jo Bronzich frá Bandaríkjunum og Laurent Carriere frá Kanada.

Sobhraj var dæmdur í ævilangt fangelsi en dómstóll komst að þeirri niðurstöðu í vikunni að sleppa Sobhraj vegna aldurs, bágrar heilsu og góðrar hegðunar.

Hann er hins vegar sagður vera grunaður um fimm morð í Taílandi, sem hann hefur aldrei svarað til saka fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×