Erlent

Aksel V. Johannesen tekinn við sem lögmaður Færeyja

Kristján Már Unnarsson skrifar
Aksel V. Johannesen á Lögþingi Færeyja í morgun eftir að hann var kjörinn lögmaður.
Aksel V. Johannesen á Lögþingi Færeyja í morgun eftir að hann var kjörinn lögmaður. Kringvarpið

Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarflokksins, var kjörinn nýr lögmaður Færeyja á fundi Lögþingsins í Þórshöfn, sem hófst klukkan tíu í morgun. Fyrr um morguninn hafði Aksel ásamt formönnum hinna samstarfsflokkanna, þeim Høgna Hoydal frá Þjóðveldi og Ruth Vang frá Framsókn, kynnt samstarfssáttmála á blaðamannafundi.

Høgni Hoydal er nýr varalögmaður og utanríkis- og atvinnumálaráðherra. Ruth Vang verður fjármálaráðherra.

Alls skipa níu ráðherrar nýju landsstjórnina, fimm karlar og fjórar konur, sem í Færeyjum kallast landsstýrismaður og landsstýriskvinna.  Fjórir ráðherrar eru frá Jafnaðarflokknum, þrír frá Þjóðveldi og tveir frá Framsókn. Bjørt Samuelsen frá Þjóðveldi var kjörin formaður Lögþingsins.

Frá fundi Lögþingsins í morgun.Kringvarpið

Aðrir ráðherrar Jafnaðarflokksins eru Margit Stórá, sem fer með heilbrigðismál, Djóni Nolsøe Joensen, sem fer með barna- og félagsmál, og Ingilín D. Strøm, sem fer með umhverfismál.

Frá Þjóðveldi fer Sirið Stenberg með menntamál og Dennis Holm með sjávarútvegsmál og frá Framsókn fer Bjarni K. Petersen með dóms- og innanríkismál.


Tengdar fréttir

Sam­komu­lag um nýja stjórn í Fær­eyjum

Aksel V. Johannesen, formaður Jafnaðarflokksins í Færeyjum, segir að samkomulag hafi náðst um myndun nýrrar mið- og vinstristjórnar Jafnaðarflokksins, Þjóðveldis og Framsóknar.

Kjósa nýjan lögmann Færeyja í fyrramálið

Samkomulag hefur náðst um myndun nýrrar landsstjórnar í Færeyjum undir forystu Aksels V. Johannesen, formanns Jafnaðarflokksins, sem verður á ný lögmaður Færeyja, en því embætti gegndi hann einnig á árunum 2015 til 2019.

Viðræðum slitið um myndun nýrrar stjórnar í Færeyjum

Jafnaðarflokkurinn, Sambandsflokkurinn og Framsókn slitu í kvöld viðræðum um myndun nýrrar landsstjórnar í Færeyjum. Ágreiningur um ríkisstuðning frá Danmörku reyndist of stór biti til að kyngja, segir í frétt Kringvarps Færeyja.

Jafnaðar­flokkurinn vann sigur í Fær­eyjum

Jafnaðarflokkur Færeyja er sigurvegari í þingkosningunum sem fram fóru þar í landi í gær. Flokkurinn náði níu þingsætum sem er bæting um tvö frá fyrra þingi og er þar með orðinn stærsti flokkur Færeyja eftir að hafa fengið 26,6 prósent atkvæða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×