Körfubolti

Enn meiðslin hjá Davis setja tíma­bil Lakers í hættu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anthony Davis er meiddur og óttast er að hann spili ekki meira á tímabilinu.
Anthony Davis er meiddur og óttast er að hann spili ekki meira á tímabilinu. Vísir/Getty

Anthony Davis, önnur af stórstjörnum Los Angeles Lakers í NBA deildinni í körfubolta, verður frá í ótilgreindan tíma. Óttast er að tímabil hans sé á enda og segja má að það endi tímabil Lakers í leiðinni.

Frá því að Lakers varð NBA meistari í hálfgerðri einangrun í Orlando sumarið 2020 hefur lítið sem ekkert gengið upp hjá Lakers. Davis og LeBron James, hin stórstjarna liðsins, hafa verið meiddir til skiptis og komst liðið ekki einu sinni í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð.

Eftir að byrja hörmulega á yfirstandandi leiktíð var óttast að slíkt hið sama myndi gerast. Davis reif liðið hins vegar upp úr öldudalnum með frammistöðum sem hefðu skilað honum í umræðuna um verðmætasta leikmann deildarinnar hefði Lakers ekki byrjað svona illa.

Þessi öflugi leikmaður, þegar hann er heill heilsu, meiddist hins vegar á dögunum og nú hefur Lakers staðfest að um álagsmeiðsli á hægri fæti sé að ræða. Þar sem ekki er gefið upp hversu lengi hann er frá er talið að Davis gæti hafa spilað sinn síðasta leik á leiktíðinni.

Lakers mætti arfaslöku liði Charlotte Hornets í nótt og beið lægri hlut, sjá mátti augljóslega að Lakers er hvorki fugl né fiskur án Davis, lokatölur 134-130 Hornets í vil. Var þetta þriðja tap Lakers í röð.

LeBron skoraði 34 stig og Austin Reaves 20 en það dugði skammt þar sem Lakers spilaði enga vörn. PJ Washington var með 24 stig í liði Hornets á meðan Terry Rozier og LaMelo Ball skoruðu 23 stig hvor.

Hornets eru í 14. sæti Austurdeildar með 9 sigra í 33 leikjum á meðan Lakers er í 13. sæti Vesturdeildar með 13 sigra í 32 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×