Umræðan

Efst í huga við ára­mót

Heiðrún Jónsdóttir skrifar

„Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer allt einhvern veginn“ eru þekkt orð nóbelsskáldsins og eiga oft við. En þegar við horfum á innviði og öryggi er nauðsynlegt að líta til sérhverrar hættu og vera vel undirbúin en samhliða tryggja varaleiðir og afritanir. Þetta er það svið sem evrópsku systursamtökin okkar horfa ekki síst til þessa dagana og skulum við síst vanmeta þetta og huga að þessum þáttum í heild sinni og til lengri tíma. 

Breyttar aðstæður í Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu, vaxandi spenna í alþjóðasamskiptum og aukin hætta á náttúruvá innanlands kalla á endurmat áhættu og öryggi varðandi innviði, ekki síst á fjármálainnviði. Huga þarf að öryggi innviða með tilliti til truflana í rekstri, varna gegn árásum og varaleiða komi árása eða náttúruhamfara. Þá þarf að huga að öryggi fjarskiptabúnaðar og forræði okkar sjálfra yfir búnaði, bæði vél- og hugbúnaði. Gera þarf endurmat á öllum þessum þáttum enda eru miklar og hraðar breytingar á öllu tækniumhverfi. Á skömmum tíma, illu heilli, hafa forsendur sem gengið hefur verið út frá allt frá lokum kalda stríðsins gjörbreyst og heimurinn virðist skyndilega viðsjárverðari.

Ár mikilla sviptinga

Undanfarin ár hafa verið ár mikilla sviptinga. Heimsfaraldurinn skall á snemma árs 2020 og í kjölfar hans varð verulegur efnahagssamdráttur hér á landi sem annars staðar. Áhrif faraldursins voru hlutfallslega mikil hér á landi vegna vægis ferðaþjónustunnar sem lamaðist meðan á faraldrinum stóð. Fjármálakerfið stóðst þá prófraun sem heimsfaraldurinn olli. Urðu skakkaföll í kerfinu minni en menn þorðu að vona í upphafi hans, þótt þá hefði reyndar engan grunað að myndi standa í svo langan tíma sem raunin varð. 

Á skömmum tíma, illu heilli, hafa forsendur sem gengið hefur verið út frá allt frá lokum kalda stríðsins gjörbreyst og heimurinn virðist skyndilega viðsjárverðari.

Snemma á þessu ári hófst innrás Rússa í Úkraínu sem leitt hefur til vaxandi verðbólgu í Evrópu vegna hækkana á orku, matvælum og hrávöru, sömu áhrifa gætir hér. Hækkandi verðbólga hefur leitt til stefnubreytinga í vaxtamálum og hafa vextir farið hækkandi víða um lönd. Bæði faraldurinn og innrás Rússa í Úkraníu hafa leitt til truflana í framleiðslu og flutningum. Þrátt fyrir þessar áskoranir virðist fjármálakerfið standa sterkt samanber nýlega skýrslu Seðlabanka um fjármálastöðugleika. Nýlegar tölur um vanskil í bankakerfinu staðfesta það sama en þau eru í sögulegu lágmarki.

Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki miklu hærri en í nágrannalöndum

Stuttu eftir að Covid faraldurinn skall á ákvað Alþingi að tillögu ríkisstjórnarinnar að flýta áformaðri lækkun svokallaðs bankaskatts. Bankaskatturinn (lagður á skuldir fyrirtækja umfram 50 milljarða króna) er einn af þremur sérsköttum sem lagður er á íslensk fjármálafyrirtæki og leggjast að stórum hluta á stóru bankana þrjá. Hinir tveir eru fjársýsluskattur (5,5% af launum) og sérstakur fjársýsluskattur (6% viðbótartekjuskattur). Að auki greiða fjármálafyrirtækin sérstök gjöld til að mæta kostnaði við rekstur fjármálaeftirlits (FME) og embættis Umboðsmanns skuldara (UMS). Bankaskatturinn var lækkaður úr 0,375% í 0,145% á árinu 2020.

 Flýtingu lækkunar bankaskatts var ætlað að auka viðnámsþrótt banka vegna heimsfaraldursins og auka getu þeirra til að styðja lántakendur sem urðu fyrir skakkaföllum vegna hans. Áformin um lækkun skattsins byggðu á greiningu og niðurstöðum Hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið sem sýndi að þessir skattar voru margfalt hærri hér en í nágrannalöndum, þeir skekktu samkeppnisstöðu á fjármálamarkaði og stuðluðu þannig að hærri vaxtamun innlendra banka. Lækkun bankaskattsins svaraði til rösklega 5 milljarða króna á ári. Eftir stendur að árlegar tekjur ríkissjóðs af bankaskatti og hinu tveimur sérsköttunum eru alls um 10 – 12 milljarðar á ári. Þessu til viðbótar koma hin sérstöku gjöld vegna FME og UMS, alls um 2 milljarðar. Að auki greiða bankar tekjuskatt félaga, sem skilaði ríkissjóði um 20 milljörðum á árinu 2021 og líklega svipaðri fjárhæð á þessu ári. 

Flýtingu lækkunar bankaskatts var ætlað að auka viðnámsþrótt banka vegna heimsfaraldursins og auka getu þeirra til að styðja lántakendur sem urðu fyrir skakkaföllum vegna hans.

Þrátt fyrir lækkun bankaskattsins eru sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki enn miklu hærri en í nágrannalöndunum. Verkefni stjórnvalda ætti fremur að vera að halda áfram lækkun þessara sérstöku skatta en að hækka þá á ný. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi þess að íslensk fjármálafyrirtæki búi ekki við auknar álögur, hvort sem er í formi skatta eða reglna, sem skekkir samkeppnishæfni þeirra og möguleika þeirra til heilbrigðs vaxtar.

Aukin áhersla á sjálfbærni

Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til innleiðingar á tveimur reglugerðum ESB. Annars vegar um upplýsingagjöf sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og hins vegar um flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Áformað er að þessi lög taki gildi um mitt næsta ár verði þau að lögum frá Alþingi.

Tilgangur þessa regluverks er að stuðla að því að stærri fyrirtæki upplýsi um sjálfbærni starfsemi sinnar samkvæmt flokkunarkerfi sem ESB hefur búið til. Fjármálafyrirtæki munu nota þessar upplýsingar til þess að greina lánafyrirgreiðslu sína með tilliti til sjálfbærni og upplýsa um það í reglulegri upplýsingagjöf sinni. Þessum upplýsingum er jafnframt ætlað að vera grundvöllur grænnar fjármögnunar fjármálafyrirtækja þar sem fjárfestar sem vilja stuðla að settum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum sem geta stutt við þau með því að taka þátt í grænni fjármögnum. Fjármálafyrirtækin fagna þessari löggjöf og vona og treysta að hún muni ná markmiðum sínum. Töluverð vinna verður þó að innleiða þessi kerfi en fjármálafyrirtækin eru ekki óvön slíkum verkefnum og fagna áföngum til þess að bæta þjónustu og rekstrarumhverfi til lengri tíma.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.




Umræðan

Sjá meira


×