Í gærkvöldi tók gekk enn önnur lægð upp að landinu suðvestantil og gengur hún nú yfir landið. Lægðinni hefur fylgt mikil snjókoma, víða er ófært og vetrarveður er á landinu öllu. Þá hafa björgunarsveitir verið kallaðar út.
„Í flestum landshlutum er svolítið svona vindasamt og með skafrenningi á flestum fjallvegum og með erfiðum akstursskilyrðum þar,“ segir Marcel de Vries veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.
Það dregur úr vindi með kvöldinu um allt land en þó fyrr eða upp úr hádegi á suðvesturhorni landsins. Á morgun hvessir á ný á Suðausturlandi og á Austfjörðum. Þá taka gular viðvaranir gildi.
Tvö hús að Höfðabrekku, austan Víkur, voru rýmd í gærkvöldi vegna mögulegrar snjóflóðahættu og stendur rýmingin enn. Um er að ræða hótelrými og þjónustuhús og voru gestir færðir í annað húsnæði á vegum þessa sama hótels.
Loka hefur þurft vegum vegna ófærðar.
„Það er ágætis færð milli Reykjavíkur og Akureyrar og eins og ágætt frá Akureyri og austur úr. Það má búast við að það versni færðin fyrir austan með kvöldinu,“ segir Kristinn Jónsson deildarstjóri umferðarþjónustu hjá Vegagerðinni.
Hellisheiðinni var lokað um tíma í dag og Þrengslunum en þar hefur verið opnað fyrir umferð á ný.
„Um tíu leytið þá opnaði vegurinn frá Selfossi á Vík og það er unnið að því að opna áfram austur úr og verður vonandi orðið opið um hádegisbilið. Þar aftur á móti fyrir austan Vík er búist við því að það gæti lokað seinni partinn aftur vegna veðurs.“
Mikilvægt er að fólk fylgist vel með hvar er opið fyrir umferð og hvar lokað en hægt er að finna allar upplýsingar á heimasíðu Vegagerðarinnar. Kristinn segir unnið að snjómokstri um allt land.
„Það eru held ég bara allir bílar sem við eigum úti að moka. Það náttúrulega stoppar ekki nema þegar bilar tæki.“
Hann segir mikið álag hafa verið á símakerfi Vegagerðarinnar um jólin.
„Versti dagurinn þegar Reykjanesbrautin var lokað þá voru það þrjú þúsund símtöl yfir daginn. Það er búið að vera öll jólahelgin mikið hringt og greinilegt að ferðavenjur Íslendinga hafa breyst mjög mikið. Það eru ekki bara túristarnir sem eru að fara á milli landshluta heldur er fólk að borða kannski á Ísafirði á aðfangadag og ætla að vera í Reykjavík á jóladag og þá kannski á Akureyri á annan í jólum. Þannig að það eru mikið meiri ferðalög á milli landshluta. Ég var að vinna hérna fyrir fimmtán árum þá var jólahelgin svona frekar róleg alveg sama hvernig veðrið var. Fólk var bara heima með fjölskyldunni.“
Þá hafa þeir sem starfa við ferðaþjónustu og erlendir ferðamenn mikið hringt.
„Ferðaþjónustan hún stoppar ekkert. Ég held að jólin séu bara eins og hver annar þriðjudagur hjá þeim.“
Gert er ráð fyrir að áfram verði frost og kuldi fram yfir áramótin og svo er von á annarri lægð á gamlársdag.
„Þá er möguleiki að vindáttin snúist aftur í austan eða suðaustanátt og með snjókomu fyrir vestan og sunnan aftur,“ segir Marcel.