„Þetta er sambland af sýndarmennsku og særðu stolti,“ segir Sveinn Andri sem var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2. „Það liggur fyrir, og er margúrskurðað, að mennirnir eru algjörlega hættulausir, bæði sjálfum sér og öðrum. Á þeim grundvelli hafa þeir verið látnir lausir og almannahagsmunir ekki taldir til staðar til þess að þeir sæti gæslu.“
Viðbúnaðarstig vegna hryðjuverkaógnar hér á landi er nú það sama og í Noregi og Svíþjóð. Ekki var talin ástæða til að greina almenningi strax frá hækkuðu viðbúnaðarstigi. Í því að færa viðbúnaðarstig úr A í B felst aukinn viðbúnaður vegna vísbendinga um að öryggisógn sé til staðar.
Sveinn segir lögreglu hafa þurft að rökstyðja það með viðhlítandi hætti, hvers vegna ákvörðun um hækkun viðbúnaðarstigs var tekin. Það hafi embættið hins vegar ekki gert.
„Þessir drengir hafa verið í faðmi fjölskyldunnar undanfarna daga, opnað pakka og stangað hangikjöt úr tönnunum. Eina sem svona tilkynning gerir er að valda ótta og kvíða hjá fólki sem er þegar með einhverja kvíðaröskun. Aðrir kippa sér ekki upp við þetta og flestir hjá almenningi sjá í gegnum þetta fimbulfamb hjá lögreglunni,“ segir Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður.
Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn var einnig spurður út í þessi ummæli Sveins Andra.
„Ég hvet menn bara til að skoða öll þau gögn sem hafa verið lögð fram, hvort sem það er frá lögreglu eða Europol, sem hafa rannsakað öll hryðjuverkamál sem hafa verið í Evrópu. Ég kýs að fara ekki í neinar málalengingar út frá því, mér finnst það mjög ófaglegt,“ segir Karl Steinar Valsson.