Umræðan

Árið á verðbréfamarkaði – raðirnar þéttar

Magnús Harðarson skrifar

Á árinu 2021 efldist hlutabréfamarkaður sem um munaði og á árinu sem nú er að líða höfum við styrkt stoðirnar enn frekar. Þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður og óvissu í efnahagsmálum á heimsvísu komu fjögur ný félög inn í Kauphöllina (Nasdaq Iceland); Ölgerðin og Nova á Aðalmarkað og Amaroq Minerals og Alvotech á First North vaxtarmarkaðinn, en Alvotech skráði sig samhliða á Nasdaq kauphöllina í New York. Alvotech gerði sér svo lítið fyrir og færði sig frá First North yfir á Aðalmarkaðinn núna í desember, en þessi þriðja skráning eins félags á hálfu ári hlýtur að vera met í einhverjum bókum. Við erum afskaplega ánægð að sjá að fjölbreytni fjárfestingakosta hafi aukist í Kauphöllinni, en ekkert félag í svipaðri starfsemi og Ölgerðin, Alvotech og Amaroq Minerals var þar fyrir.

Almenningur lætur til sín taka – ungt fólk áberandi

Við höfum horft upp á öfluga innkomu einstaklinga í hópi hluthafa, en nú eiga um 31 þúsund Íslendingar hlutabréf og hefur fjöldinn u.þ.b. þrefaldast á undanförnum þremur árum. Ungt fólk er áberandi á meðal nýrra hluthafa, en hluthöfum undir þrítugu hefur fjölgað tvöfalt hraðar en þeim sem eldri eru. Til að mynda voru nýir hluthafar í Ölgerðinni um fjórðungur af hópnum. Enn er hins vegar verk að vinna þegar kemur að þátttöku kvenna sem eru einungis um þriðjungur hluthafa í skráðum félögum. Kauphöllin vann að því á árinu að efla fjármálalæsi á meðal ungs fólks með samtökum Ungra athafnakvenna og Ungra fjárfesta. Þannig var markmiðið að auka skilning á verðbréfamarkaði og hlutverki hans fyrir blómlegt efnahagslíf og styðja við fjárhagslega valdeflingu, fjárfestavernd og fjölbreytileika á verðbréfamarkaðnum. Það er ánægjulegt að segja frá því að áframhald verður á þessu samstarfi á nýju ári.

Við erum afskaplega ánægð að sjá að fjölbreytni fjárfestingakosta hafi aukist í Kauphöllinni, en ekkert félag í svipaðri starfsemi og Ölgerðin, Alvotech og Amaroq Minerals var þar fyrir.

Innkoma erlendra fjárfesta breytir leiknum

Langþráð stund rann upp í september þegar alþjóðlega vísitölufyrirtækið FTSE Russell hækkaði gæðaflokkun íslenska markaðarins úr flokki vaxtarmarkaða í flokk nýmarkaða. Við það fóru 15 íslensk félög í vísitölur FTSE fyrir nýmarkaði, en slík uppfærsla er klár gæðastimpill fyrir markaðinn. Við þessi tímamót urðu tvö erlend fjármálafyrirtæki, Instinet og UBS beinir aðilar að Kauphöllinni. Uppfærslan hafði í för með sér tugmilljarða erlent innflæði, að stórum hluta frá vísitölusjóðum, sem fjárfesta í félögum í ofangreindum vísitölum. Aukin aðkoma erlendra fjárfesta er mikilvæg enda styður hún við fjármögnun skráðra fyrirtækja. Enn er þó mikið rými til framfara þar sem eignarhlutdeild erlendra fjárfesta á markaðnum er einungis um 10% og margfalt minni en á hinum Norðurlöndunum, þar sem hlutfallið er um helmingur. 

Við eygjum töluverð vaxtartækifæri í því að uppfylla fleiri skilyrði FTSE fyrir frekari hækkun í gæðastiganum, en til þess þurfum við fyrst og fremst að stækka markaðinn verulega. Stærri og sterkari hlutabréfamarkaður styður við blómlegt atvinnulíf og velsæld í samfélaginu, eykur gagnsæi og gerir fjölbreytilega fjárfestingarkosti aðgengilega öllum. Aukið fjármagn frá innlendum sem erlendum fjárfestum til félaga eykur nýsköpun og hagvöxt, ekki bara á markaði heldur víðar; skapar áhugaverð og vel launuð störf og fleiri og fjölbreyttari fjárfestingarkosti fyrir allan almenning. Þannig verður lýðræðislegri dreifing arðs af atvinnulífinu og gagnsæi um rekstur félaga.

Við eygjum töluverð vaxtartækifæri í því að uppfylla fleiri skilyrði FTSE fyrir frekari hækkun í gæðastiganum, en til þess þurfum við fyrst og fremst að stækka markaðinn verulega.

Undangengin útboð og öflugar nýskráningar og markvissar umbætur hafa átt helstan þátt því að við erum komin á þennan stað, bæði hvað varðar FTSE flokkunina og aukinn áhuga á markaðnum að öðru leyti. Til að við getum gert enn betur sem og aukið líkur á að færa okkur ofar í gæðaflokkun bæði hjá FTSE og MSCI verður að eiga sér stað áframhaldandi samtal við markaðsaðila og stjórnvöld um markaðsumbætur, sem m.a. krefjast laga- og reglugerðabreytinga. Ef vel tekst til getum við horft til framtíðar með bjartsýnum augum í að ná því að teljast til þróaðra markaða. Það þýðir u.þ.b. tvöfalt stærri markaður mældur í fjölda félaga og hlutfalli markaðsvirðis af landsframleiðslu, aukna þátttöku almennings og erlendra fjárfesta og virkan afleiðumarkað.

Fram veginn

Horfur á frekari vexti markaðarins eru góðar, við sjáum aukinn áhuga almennings og erlendra fjárfesta auk þess sem mikill áhugi er á skráningum hjá félögum í fjölbreytilegum atvinnugreinum, ekki síst í ferðaþjónustu. Bláa lónið stefnir á skráningu á næsta ári ef markaðsaðstæður leyfa og nokkur önnur félög í greininni eru í sömu stellingum. Markaðurinn hefur þá stutt vel við græna fjármögnun fyrirtækja, en öll félög á markaði hafa bæði sett sér stefnu og mælanleg markmið í UFS málefnum og mörg hver sótt fjármagn til grænna verkefna. Við horfum fram á áframhaldandi mikilvægi þessa á nýju ári. Uppbygging markaðarins er risastórt langtímaverkefni, en við teljum að við séum á réttri leið í góðu samtali við stjórnvöld og markaðsaðila.

Höfundur er forstjóri Nasdaq Iceland.




Umræðan

Sjá meira


×