Otti Rafn Sigmarsson, formaður félagsins, segir að endanlegar tölur um flugeldasölu dagana fyrir áramót liggi enn ekki fyrir.
Veðurspáin hefur sitt að segja
Otti Rafn segir að það sé þó hans tilfinning að salan nú hafi verið svipuð og fyrir ári síðan.
„Við eigum eftir að taka þetta almennilega saman, en við erum nokkuð ánægð með söluna. Auðvitað var fremur vont veður í kortunum, misjafnlega vont. Við höfðum áhyggjur af því að salan yrði minni en raunin varð.“
Hann segir að flugeldasala verði einnig opin fyrir þrettándann þegar margir leggja í vana sinn að skjóta upp flugeldum.

Óheppilega staðið að átaki Umhverfisstofnunar
Dagana fyrir áramót réðst Umhverfisstofnun í átak þar sem landsmenn voru hvattir til að sleppa flugeldum alveg eða stilla notkun þeirra verulega í hóf. Var bent á að flugeldar væru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir og að þörfin fyrir flugelda færi minnkandi með nýjum hugsunarhætti.
Otti Rafn telur að þetta átak Umhverfisstofnunar hafi haft áhrif á flugeldasöluna.
„Ég hugsa það. Þetta var óheppilega að þessu staðið hjá þeim finnst mér. Við áttum samtal við Umhverfisstofnun í desember og þá var ekkert minnst á að til stæði að fara í svona átak gegn flugeldum.
Flugeldar eru ekki bannaðir og það er engin stefna hjá stjórnvöldum að banna flugelda. Þetta átak Umhverfisstofnunar kom aftan að okkur. Það er skrýtið að verið sé að hvetja fólk til að sniðganga kaup á þessum varningi,“ segir Otti Rafn.