Lífið

Anita Pointer er fallin frá

Atli Ísleifsson skrifar
Anita Pointer árið 2019.
Anita Pointer árið 2019. Getty

Bandaríska söngkonan Anita Pointer er látin, 74 ára að aldri.

Pointer og systur hennar gerðu garðinn frægan með sveitinni Pointer Sisters sem vann til Grammy-verðlauna og naut mikilla vinsælda meðal annars með lögunum Jump (For My Love) og I'm So Excited.

Það var útgefandi Pointer sem staðfesti andlátið en Pointer lést í faðmi fjölskyldu sinnar á heimili sínu í Beverly Hills í Kaliforníu í gær.

Anita Pointer var elst Pointer-systra. Bonnie Pointer og systir hennar June stofnuðu á sínum tíma dúett, en síðar meir gengu systur þeirra, Anita og Ruth, til liðs við sveitina.

Pointers Sisters nutu vinsælda á áttunda áratugnum og unnu fyrst Grammy-verðlaun sín af samtals þremur árið 1975 fyrir lagið Fairytale. Sveitin hafði þá gefið út fyrstu plötu sína, Yes We Can Can, tveimur árum fyrr.

Litlu munaði að sveitin leystist upp undir lok áttunda áratugarins þegar Bonnie Pointer sagði skilið við sveitina og hóf þá sólóferil. Hinar systurnar héldu þó samstarfinu áfram og Bonnie gekk síðar aftur til liðs við sveitina.

Anita Pointer eignaðist eina dóttur, Jada Pointer, en hún lést af völdum krabbameins árið 2003, einungis 37 ára gömul. Anita gekk dótturdótturinni, Roxie McKain Pointer, þá í móðurstað.

June Pointer lést árið 2006 og Bonnie Pointer árið 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.