Eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 hefur komið fram gagnrýni á íslensk stjórnvöld fyrir „andvaraleysi“ og „aðgæsluleysi“ í öryggis- og varnarmálum; að þau hafi meðal annars ekki endurmetið varnarhagsmuni þjóðarinnar í kjölfar innrásarinnar. Jafnframt er gjarnan bent á ríkisstjórnarsamstarfið sem skýringu á viðbragðaleysi stjórnvalda. Öryggis- og varnarmál séu viðkvæm á stjórnarheimilinu vegna Vinstri grænna og meðal annars haldið fram að sá flokkur hafi neitunarvald í ríkisstjórninni í öryggismálum og því aðhafist hún ekki sem skyldi í þeim efnum.*
Ásakanir um andvaraleysi í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu standast ekki skoðun né heldur fullyrðingar um gerbreyttar aðstæður í íslenskum öryggis- og varnarmálum hennar vegna.
Innrásin og stríðið í Úkraínu hafa ekki haft neinar afleiðingar sem veikja undirstöður varna- og öryggismála Íslands eða krefjast endurmats á þeim, hvað þá þess að fast herlið verði á landinu – eins og meðal annars hefur verið kallað eftir. Þá er fullyrt að öll bandalagsríki önnur en Ísland hafi endurmetið varnaráætlanir sínar, sem er mjög ofmælt.
Einnig er gjarnan bent á ógn við netöryggi á landinu. Það þarf að tryggja en ekki vegna Úkraínustríðsins því nethernaður mun hafa skipt litlu sem engu máli í því.
Hvers vegna innrásin boðar ekki tímamót í íslenskum öryggismálum hefur verið útskýrt í greinum sem birtust á vefsíðu minni um aþjóða- og utanríkismál. Síðast birtist slík grein 19. september: Öryggi og varnir Íslands – og stríðið í Úkraínu og þar áður 7. mars: Íslensk öryggismál ekki á neinum tímamótum vegna stríðsins í Úkraínu.
Hér ætla ég annars vegar að rifja stuttlega upp meginatriði úr áðurnefndum greinum um Ísland og Úkraínustríðið.
Úkraínustríðið er staðbundið og líkur á að það stigmagnist í átök milli NATO og Rússlands hafa verið litlar og þær fara minnkandi af því rússneski herinn hefur veikst mjög eftir hrakfarir hans í Úkraínu. Vörnum Íslands er vel fyrir komið í varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna, langvoldugasta herveldi heims. Úkraínustríðið hefur auðvitað með engum hætti veikt skuldbindingar þess í garð Íslands.
Hins vegar fjalla ég í þessari grein um strategísk grundvallaratriði sem varða hernaðarlega stöðu Íslands. Það er lykill að skilningi á íslenskum öryggismálum – fyrr og nú. Hin strategísku lykilatriði eru einföld og skýr og voru til staðar fyrir innrásina í Úkraínu.
Úkraínustríðið hefur ekki veikt undirstöður íslenskra öryggis- og varnarmála
Í fyrsta lagi hafa verið litlar líkur á að átökin í Úkraínu breyttust í stríð milli NATO og Rússlands. Slík stigmögnun er ekki útilokuð en hún er almennt talin ólíkleg.
En slík stigmögnun í stórveldaátök á meginlandi Evrópu væri forsenda þess að hernaðarógn yrði til gegn Íslandi af völdum Úkraínustríðsins.
Þar er um að ræða staðbundið stríð í landi sem Rússar líta svo á að tilheyri áhrifasvæði þeirra. Ekkert bendir til annars en að þeir ætli að halda hernaði sínum innan landssvæðis Úkrænu. Ennfremur er ljóst að Bandaríkin vilja ekki með neinum hætti stuðla að stigmögnun átakanna í stríð milli NATO og Rússlands.
Þá eru enn minni líkur en áður á stigmögnun með rússneskri árás á eitt eða fleiri NATO ríki eftir stórfellt tjón rússneska hersins í Úkraínu – manntjón og hergagnatjón – og í ljósi þeirra mörgu og alvarlegu veikleika sem hrjá hann og stríðið hefur afhjúpað.
Að laga veikleika rússneska hersins og endurreisa hann eftir tjónið sem hann hefur beðið í stríðinu mun taka mörg ár að talið er. Breskur fjölmiðill hefur eftir ónefndum breskum embættismönnum að það muni taka allt að 30 ár að endurreisa her og efnahag Rússlands. Á meðan standa Bandaríkin og önnur NATO ríki auðvitað ekki í stað, heldur munu yfirburðir þeirra yfir Rússland – efnahagslegir og hernaðarlegir – vaxa og verða enn meiri en áður.
Margt benti til þess fyrir innrásina að Rússland væri hnignandi stórveldi. Hrakför rússneska hersins í Úkraínustríðinu og efnahagslegar refsiaðgerðir vesturlanda hraða verulega þeirri þróun. Hvort hún valdi því hugsanlega að aðrar og nýjar hættur stafi frá Rússlandi er annað mál og tíminn verður að leiða í ljós hvað gæti gerst að þessu leyti. Næsta víst er þó að rússneski herinn er í engu standi til að takast á við NATO – var það líklega ekki heldur fyrir innrásina.
Enn minni líkur eru en áður á stigmögnun með rússneskri árás á eitt eða fleiri NATO ríki eftir stórfellt tjón rússneska hersins í Úkraínu.
Í öðru lagi byggjast varnir Íslands sem fyrr á varnarsamningnum við Bandaríkin, langöflugasta herveldi heims. Vandséð er hverju þarf við að bæta og að ástæða sé til að hafa áhyggjur af vörnum landsins – nema efast sé um staðfestu Bandaríkjanna.
Engin ástæða er til að ætla að Bandaríkin mundu ekki standa við skuldbindingar sínar gagnvart Íslandi á hættutíma. Það væri í þágu þjóðaröryggishagsmuna Bandaríkjanna sjálfra. Hernaðargeta þeirra til að verja Ísland er augljós.
Endurmat á varnarhagsmunum Íslands er óþarft. Fyrir liggur hverjir þeir eru og engin breyting orðið þar á. Þeir lúta fyrst og síðast að loftvörnum gegn langdrægum stýriflaugum sem sendar yrðu af stað frá flugvélum, herskipum eða kafbátum frá stöðum allt að 3 þúsund kílómetrum fyrir norðan Ísland en eina skotmarkið að heita má væri Keflavíkurflugvöllur.
Landhersveitir hurfu úr varnarliði Bandaríkjanna á Íslandi á árinu 1960.
Í gagnrýni á stefnu stjórnvalda hefur verið bent á ógn við netöryggi á landinu. Hún er vafalítið hugsanleg en síst vegna Úkraínustríðsins. Nethernaður mun hafa skipt litlu sem engu máli þar og Rússar ekki reynst miklir nethermenn. Þá er það svo að sé fyrir netvörnum haft bendir flest til að þær séu séu almennt skilvirkar. Það sést meðal annars af tilraunum Rússa til nethernaðar í Úkraínu og Eystrasaltsríkjunum.
Það eru kjarnorkuvopn sem gera Rússland að stórveldi í hernaðarlegu tilliti en eina gildi þeirra er að fæla frá árás á tilvistarhagsmuni – árás sem auðvitað enginn hefur í hyggju að gera á Rússland. Að öðru leyti er notagildi kjarnavopna lítið – ef nokkuð.
Hafa öll önnur NATO ríki en Ísland endurmetið varnaráætlanir sínar eftir innrásina í Úkrænu?
Þessu hefur verið haldið fram í því skyni að gagnrýna meint viðbragðaleysi íslenskra stjórnvalda við innrásinni í Úkraínu. Rétt er að áhersla NATO á austurvæng bandalagsins hefur verið endurmetin og efld. Bandaríkin hafa fjölgað í liði sínu í austur Evrópu um 20 þúsund manns. Þar með eru samtals 100 þúsund í Bandaríkjaher í Evrópu – landher, flota og flugher – og þá er allt talið, ekki bara hermenn heldur margskonar stuðningslið einnig.
Meginbreyting hvað varðar viðbrögð annarra NATO ríkja við innrásinni í Úkraínu virðist vera að sum þeirra eru að taka sig á í varnarmálum eftir margra ára og áratuga vanrækslu í því efni og leggja nú meira fé af mörkum til landvarna.
NATO heldur leiðtogafund í Vilnius í Litháen í júlí næstkomandi. Markmið er meðal annars að styrkja frekar fælingu á austurvæng bandalagsins, ákvarða forgangsröðun við uppbyggingu herstyrks bandalagsríkjanna og auka aðstoð við Úkraínu.
Finnland og Svíþjóð eru svo vitað sé einu ríkin sem hafa endurmetið varnarhagsmuni í grundvallaratriðum eftir innrásina í Úkraínu. Þau hafa horfið frá hlutleysistefnu og sótt um aðild að NATO.
Finnar og Svíar eru í Evrópusambandinu en telja það greinilega ekki duga til að tryggja öryggi sitt. Bæði Finnland og Svíþjóð höfðu aukið verulega hernaðarlega samvinnu við NATO eftir að harðnaði á dalnum í alþjóðamálum í kjölfar þess að Rússar innlimuðu Krímskaga 2014.
Nú vilja Finnar og Svíar greinilega tryggja sig betur en unnnt er með aðild að ESB og virðast í því skyni vilja komast í bandalag við Bandaríkin, en það er innifalið í aðild að NATO. Ólíkt Finnum og Svíum þurfa Íslendingar ekki að endurmeta varnarstefnu sína að þessu leyti því Ísland stofnaði til hernaðarbandalags við Bandaríkin fyrir rúmlega 70 árum!
Finnar og Svíar eru í Evrópusambandinu en telja það greinilega ekki duga til að tryggja öryggi sitt.
Það var með aðildinni að NATO árið 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin 1951. Reyndar varð bandalag Íslands og Bandaríkjanna til tíu árum fyrr – í síðari heimsstyrjöld með herverndarsamningnum 1941. Um sögu þessa bandalags fram til okkar tíma fjallaði ég í síðast í fyrirlestri í Þjóðminjasafninu (Ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af sögu sem er löngu lokið – og þó ekki) sem birtist á vefsíðunni og í fésbókarhópnum 1. apríl 2022.
Í ljós gagnrýninnar sem komið hefur fram á íslensk stjórnvöld í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu er fróðlegt að skoða viðbrögð norskra stjórnvalda.
Í fyrrnefndum greinum mínum um áhrif Úkraínustríðsins á íslensk öryggismál hefur komið fram að fljótlega eftir innrásina sögu norsk stjórnvöld að stríðið kallaði á aukna árvekni, en fæli ekki í sér beina ógn við Noreg.
Ekki hefur átt sér stað endurmat á norskum varnaráætlunum og varnarhagsmunum svo vitað sé en viðbragðsstaða hefur verið aukin í norður Noregi – þó ekki fyrr en í nóvember, mörgum mánuðum eftir innrásina. Norðmenn eiga 200 kílómetra löng landamæri að norðvestur Rússlandi.
Aukin viðbragðsstaða var kynnt sem almenn varrúðarráðstöfun en hún var ákveðin eftir að upp kom ótti um öryggi gasleiðsla úti fyrir ströndum Noregs eftir að vart varð við það sem menn töldu vera grunsamlegt drónaflug í nágrenni borpalla. Þá eru norsk stjórnvöld, eins og sum önnur NATO ríki, að hraða aukningu útgjalda til hermála til að uppfylla skuldbindingar í NATO.
Auk þess að ekki er litið svo á að innrásin í Úkraínu feli í sér beina ógn við öryggi Noregs, hafa norsk hermálayfirvöld bent á að rússnesk hernaðarumsvif í nágrenni Noregs hafi verið lítil eftir innrásina. Þá hafi stór hluti rússneskra landherssveita í nágrenni Noregs – á Kolaskaga – verið fluttur til Úkraínu til að berjast þar. Norsk hermálayfirvöld segja að það sem eftir sé af landhersveitum á Kola sé bara brot af því sem var þar áður. Þá er bent á að þessar rússnesku sveitir hafi orðið fyrir miklu mann- og hergagnatjóni í Úkraínu.
Hvað varðar rússnesk hernaðarumsvif á svæðum við Ísland eftir innrásina bendir allt til að þau hafi eins og undanfarin ár verið mjög lítil. Það á við umferð kafbáta og herskipa. Rússnesk herflugvél hefur ekki komið í nágrenni við Íslandi í tvö og hálft ár! Starfsemi bandarískra herflugvéla sem hafa notað Keflavíkurflugvöll hefur enda ekki beinst að svæðum nálægt Íslandi eins og síðar verður nánar vikið að.
Hernaðarlegt öryggi Íslands er háð valda- og hernaðarjafnvægi milli stórvelda á meginlandi Evrópu. Þannig er það og þannig var það.
Og þá er það svo að vegna langdrægra stýriflauga þurfa rússneskar flugvélar, herskip og kafbátar ekki að koma inn á svæði í nágrenni landsins til að árása. Þær yrðu sem fyrr sagði gerðar með langdrægum stýriflaugum frá stöðum langt fyrir norðan landið. Eftirlit með svæðum nálægt Íslandi hefur því fremur lítið með öryggi þess að gera.
Horfa þarf á hernaðarlega stöðu Íslands í strategísku samhengi – það skýrir flest í íslenskum öryggis- og varnarmálum Hernaðarlegt öryggi Íslands er háð valda- og hernaðarjafnvægi milli stórvelda á meginlandi Evrópu. Þannig er það og þannig var það – bæði í síðari heimsstyrjöld og í kalda stríðinu.
Hernaðarlegur viðbúnaður á Íslandi á hættutíma mundi einkum lúta að fælingarstefnu NATO á norðurslóðum gegn hugsanlegri hættu á rússneskri árás á bandalagið á meginlandi Evrópu. Slíkur viðbúnaður kæmi til landsins ef talið væri að stefndi í hugsanleg átök við Rússland. Þetta yrðu aðalega loftvarnasveitir, eldsneytisflugvélar og kafbátaleitarflugvélar sem og herlið til að gæta öryggis Keflavíkurflugvallar.
Hernaðarlegur viðbúnaður á Íslandi kæmi ekki í veg fyrir árás á landið – hefur ekki sjálfstætt fælingargildi þar. Það stafar af því að slík ógn yrði því aðeins til ef fæling NATO hefði mistekist – ekki á Íslandi, Norður-Atlantshafi eða á norðurslóðum – heldur mistekist á meginlandi Evrópu. Ógn við Ísland yrði afleiðing þess.
Þessi lykilatriði voru til staðar auðvitað fyrir innrásina. Ein stór strategísk breyting hefur hins vegar orðið vegna Úkraínustríðsins. Hún er að hernaðarmáttur Rússa á meginlandinu hefur minnkað mikið vegna stríðsins eins og áður sagði og mörg ár mun taka að endurreisa herinn og lagfæra marga og alvarlega veikleika hans. Þangað til er hann ekki í standi til að takast á við NATO.
Meðal þess sem talið er að Rússar muni ekki eiga nema í takmörkuðum mæli um ókomin ár eru stýriflaugar af því tagi sem líklegast er að notaðar yrðu í stríði til árása á Keflavíkurflugvöll.
Lítil rússnesk hernaðarumsvif í nágrenni Íslands og strategísk staða landsins valda því að umsvif Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli beinast ekki aðallega að svæðum nálægt Íslandi heldur einkum að fjarlægari stöðum. Þeir tengjast valda- og hernaðarjafnvægi á meginlandinu og fælingu þar, sem og kjarnorkuvopnajafnvæginu milli Rússlands og Bandaríkjanna.
Í júlí 2022 var birt uppfærð flotastefna Rússlands sem setur Atlantshaf í þriðja sæti í forgangsröð á eftir norðurslóðum og Kyrrahafi.
Umsvif Bandaríkjahers frá Keflavíkurflugvelli eru næstum eingöngu flug P-8 kafbátaleitarflugvéla. Svæðin sem þær fljúga aðallega til í eftirlitsferðir frá Keflavíkurflugvelli eru einkum norðurhöf, nánar tiltekið „hánorður“ (high north), það er norðanvert Noregshaf og Barentshaf. Frá hausti 2021 hafa slíkar flugvélar í verulegum mæli einnig farið ferðir frá Keflavíkurflugvelli til Eystrasalts.
Hánorður hefur mikla strategíska þýðingu þar á meðal fyrir fælingarstefnu NATO á meginlandinu gegn Rússlandi. Þá er hryggjarstykki í kjarnorkuher Rússa í eldflaugakafbátum Norðurflotans, en þeim er aðallega haldið úti í Barentshafi frá stöðvum á Kolaskaga í norðvestur Rússlandi. Að verja kafbátana er forgangshlutverk Norðurflotans. Það er ekki að sækja út á Norður Atlantshaf, sem hann hefur að auki takmarkaða burði til að gera.
Í júlí 2022 var birt uppfærð flotastefna Rússlands sem setur Atlantshaf í þriðja sæti í forgangsröð á eftir norðurslóðum og Kyrrahafi.
Ein afleiðing Úkraínustríðsins verður sú að búast má við að kjarnorkuvopn Norðurflotans og öryggi þeirra fái enn meira vægi en áður – meðal annars til að undirstrika að Rússland sé áfram stórveldi þrátt fyrir hernaðarlegu áföllin miklu í Úkraínu. Þýðing norðurslóða, en einkum Barentshafs og Kolaskaga, fyrir Rússland fer með öðrum orðum vaxandi vegna Úkraínustríðsins.
Mikilvægi Norðurflotans hefur einnig aukist á undanförnum árum vegna þess að í vopnabúrinu hafa orðið til langdrægar stýriflaugar sem dregið gætu til skotmarka í Evrópuríkjum frá kafbátum eða herskipum í heimahöfum flotans og til Norður Ameríku frá Íshafinu.
Í stríði mundi kafbátaleit frá Keflavíkurflugvelli styrkja varnir Íslands næði hún langt norður í höf, sem hún mundi væntanlega gera, þar sem væru rússneskir kafbátar eða herskip sem bæru langdrægar stýriflaugar sem gætu náð til Íslands. P-8 flugvélar hafa bæði vopn til að granda kafbátum og herskipum.
Til dæmis um starfsemi P-8 flugvéla frá Keflavikurflugvelli er að síðustu vikur ársins 2022 voru töluvert mikil umsvif þessara flugvéla frá flugvellinum. Þau virtust annarsvegar stafa af þátttöku í æfingu norska flotans (Flotex 22) með skipum og flugvélum annarra NATO ríkja á Noregshafi, og hinsvegar af eftirliti með rússneskri æfingu á Eystrasalti og þátttöku í æfingu NATO þar.
Fyrir og eftir ármótin 2022/23 var flogið til Eystrasalts til að njósna um starfsemi rússneska hersins í Kaliningrad. P-8 flugvélar eru bæði gerðar til leitar og eftirlits á hafi (maritime patrol) og til að njósna (reconnaisance) yfir hafi eða landi um hernaðarumsvif, herflutninga, fjarskipti og fleira.
Höfundur er sérfræðingur um öryggis- og varnarmál og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússandi og í Bandaríkjunum.
*Greinin birtist fyrst á vefsvæði Alberts á Facebook og heimasíðu þar sem hann fjallar reglulega um alþjóðamál.