Durant, sem er einn af betri mönnum deildarinnar, byrjaði tímabilið með látum þegar hann sagðist vilja yfirgefa Nets. Á sama tíma kom Kyrie Irving sér enn og aftur í vandræði og virtist sem um sannkallað hryllingstímabil yrði að ræða.
Það breyttist eftir að Steve Nash var látinn fara og allt í einu fór Nets að vinna leiki. Liðið hefur í raun verið sjóðandi heitt undanfarnar vikur og unnið 18 af síðustu 20 leikjum sínum. Durant meiddist hins vegar í eins stigs sigri á Miami Heat á aðfaranótt mánudags.
Jimmy Butler, leikmaður Heat, datt aftur fyrir sig á hné Durant sem lá eftir í dágóða stund. Durant reyndi að halda áfram en var á endanum tekinn af velli. Nú er ljóst að hann er með skaddað liðband.
„Ég var þarna rétt hjá þessu og svona atvik eru óhugnanleg,“ sagði Kyrie eftir leik.
Í yfirlýsingu Nets segir að meiðslin verði skoðuð að nýju eftir tvær vikur en talið er að það taki leikmenn um 5-7 vikur að jafna sig eftir að hafa tognað á liðbandi.
Brooklyn Nets forward Kevin Durant has been diagnosed with an isolated MCL sprain of the right knee. The injury occurred during the third quarter of last night s game at Miami. Durant will be reevaluated in two weeks.
— Brooklyn Nets (@BrooklynNets) January 9, 2023
Durant hefur glímt við töluvert af meiðslum síðan hann samdi við Nets en hann var að jafna sig eftir að slíta hásin þegar hann samdi við félagið. Hann lék ekkert á sínu fyrsta tímabili og var svo frá í rúmlega einn og hálfan mánuð á síðustu leiktíð vegna meiðsla á hné.
Durant er með 30,0 stig, 6,8 fráköst og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í leik á þessu tímabili.