Innlent

Björgunar­sveitir í æfinga­ferð að­stoðuðu tugi öku­manna

Árni Sæberg og Kristín Ólafsdóttir skrifa
Sigurbjörg Metta var ein þeirra sem aðstoðuðu fjölda ökumanna í gærkvöldi og í nótt.
Sigurbjörg Metta var ein þeirra sem aðstoðuðu fjölda ökumanna í gærkvöldi og í nótt. Stöð 2/Arnar

Liðsmenn þriggja björgunarsveita voru fyrir tilviljun staddir á Mosfellsheiði þegar tugir ökumanna lentu í vandræðum uppi á heiðinni í gær.

Veginum um Mosfellsheiði var lokað í dag vegna ófærðar. Áður en veginum var lokað hafði nokkur fjöldi ökumanna lent í vandræðum á heiðinni.

„Við duttum svolítið inn í þetta verkefni, við vorum þrjár sveitir í æfingaferð, vorum bara rétt ókomin uppi á heiði þegar við erum kölluð upp og beðin um að kíkja á aðstæður. Þá voru fyrstu tölur að þetta væru svona tíu til fimmtán bílar sem voru í einhvers konar vandræðum, ekkert endilega fastir og við sendum einn bíl yfir heiði og hæsta tala sem ég heyrði var svona í kringum sjötíu bíla,“ sagði Sigurbjörg Metta Sigurjónsdóttir frá Hjálparsveit skáta í Kópavogi í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Hún segir að aðstæður hafi ekki litið vel út uppi á heiðinni. Mikill kuldi hafi verið, skafrenningur og mjög blint. Því skilji hún vel að fólk hafi stöðvað bíla sína og ekki treyst sér til að halda áfram.

Fréttastofa ræddi við fulltrúa Vegagerðarinnar í dag sem sagði að það væri vandamál, að ferðamenn væru á illa búnum bílum og að festa sig í slæmri færð.

Sigurbjörg Metta telur það vera verkefni sem nauðsynlegt sé að vinna saman og gefa ferðamönnum, gestunum okkar, upplýsingar um færð á vegum og veðurskilyrði. Það sé eitthvað sem ferðamenn átta sig ekki á áður en þeir koma. Þetta sé eitthvað sem þeir hafa ekki upplifað áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×