Kvikmyndin Tár hefur vakið mikla athygli og líklegt þykir að hún verði fyrirferðarmikil á Óskarsverðlaunahátíðinni í mars. Hildur Guðnadóttir samdi tónlistina fyrir myndina og hefur hlotið mikið lof fyrir.
Í stuttu máli leikur Blanchet samkynhneigðan hljómsveitarstjóra sem sökuð er um að beita ungar tónlistarkonur kynferðislegu ofbeldi.
Hin mögulega fyrirmynd aldrei verið sökuð um ofbeldi
Bent hefur verið á, meðal annars í gagnrýni New York Times, að hin ímyndaða persóna Blanchet, og Alsop, sem var um tíma eini kvenkyns hljómsveitarstjórinn til að leiða stóra sinfónuhljómsveit, deili ýmsum líkindum.

Báðar eru samkynhneigðar, báðar eru giftar hljóðfæraleikara í sinfóníuhljómsveit og báðar einu kvenkyns hljómsveitarstjórarnir sem hafa verið í þeirri stöðu að leiða stóra sinfóníuhljómsveit, önnur í raunveruleikanum, hin í kvikmyndinni.
Sá reginmunur er þó á þeim að Alsop hefur aldrei verið sökuð um ofbeldi í garð neins, líkt og gerist með persónu Blanchet í myndinni. Alsop segir að þessi þáttur myndarinnar sé særandi.
„Ég las fyrst um myndina seint í ágúst og ég var í áfalli yfir því að ég væri fyrst að heyra um hana þá,“sagði Alsop í nýlegu viðtali við Sunday Times í Bretlandi. Myndin kom út í september á síðasta ári.
„Svo margir yfirborðskenndir þættir Tár virtust passa við mitt eigið líf. En þegar ég sá myndina hafði ég ekki lengur áhyggjur. Ég var sár. Ég var sár sem kona, ég var sár sem hljómsveitarstjóri, ég var sár sem lesbía,“ sagði Alsop.
Gagnrýnir hún það að þegar loksins sé gerð mynd um kvenkyns hljómsveitarstjóra sé hún gerð að ofbeldismanni.
„Það hryggði mig mjög,“ sagði Alsop.
Athygli vekur að persóna Blanchet nefnir Alsop á nafn í myndinni, strax í upphafi þegar persóna hennar er í viðtali við blaðamann.