Sport

Gerir ekki ráð fyrir að sér verði refsað fyrir að slá konu sína

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dana White hefur setið á forsetastóli UFC í 22 ár.
Dana White hefur setið á forsetastóli UFC í 22 ár. getty/Chris Unger

Dana White, forseti UFC, gerir ekki ráð fyrir að fá refsingu fyrir að slá eiginkonu sína.

Myndband þar sem White og eiginkona hans, Anne White, sáust slá til hvors annars á skemmtistað í Mexíkó birtist á veraldarvefnum í byrjun ársins.

White baðst afsökunar á að hafa slegið Anne og sagðist ekki eiga sér neinar málsbætur. Í nýlegu viðtali sagðist hann þó ekki eiga von á refsingu og sagðist ekki vita hverju hún ætti að skila.

„Hverjar ættu afleiðingarnar að vera? Segð þú mér. Á ég að stíga frá borði í þrjátíu daga? Hvernig særir það mig? Ef ég hætti kemur það niður á fyrirtækinu og bardagamönnunum. Það kemur ekki niður á mér,“ sagði White sem hefur verið forseti UFC frá 2001.

White segist hafa gengist við mistökunum sem hann gerði en líklegast verði ekkert meira gert í málinu.

„Ég er að segja þér að þetta var rangt hjá mér en ég hef rætt mikið við Ari Emmanuel [eiganda UFC] og ESPN og enginn er ánægður með þetta, þar á meðal ég. En þetta er búið og gert og ég þarf að takast á við það. Öll gagnrýnin sem ég hef fengið á rétt á sér,“ sagði White.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×