Tökur af nýrri þáttaröð True Detective hafa farið fram um land allt síðustu mánuði, meðal annars í Reykjavík, Vogum á Vatnsleysuströnd og Keflavík. Stórleikonan Jodie Foster fer með aðalhlutverk þáttanna en framleiðslukostnaður þáttanna er um níu milljarðar króna.
Á næstu dögum hefjast tökur á þáttunum á Dalvík. Nú er unnið að því breyta bænum í bæinn Ennis í Alaska. Flokkur að fólki vinnur að því að setja upp sviðsmyndir fyrir tökur á þáttunum.
Eitthvað verður um götulokanir í bænum en verða þær framkvæmdar í samstarfi við Vegagerðina. Einhverjir bæjarbúar hafa verið beðnir um að leika aukahlutverk í þáttunum.
Þættirnir verða sýndir hjá HBO en íslenska framleiðslufyrirtækið True North kemur að tökunum hér á landi. Leifur Dagfinnsson, eigandi og framkvæmdastjóri True North, sagði í Kastljósi á síðasta ári að verkefnið væri svona tíu sinnum stærra en týpísk verkefni fyrirtækisins fyrir erlend kvikmyndatökulið.