Innlent

Rafmagnsleysið í Vestmannaeyjum líklega vegna veðurs

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Rafmagn er að komast aftur á í Vestmannaeyjum. Myndin er úr safni. 
Rafmagn er að komast aftur á í Vestmannaeyjum. Myndin er úr safni.  Vísir/Einar

Rafmagnslaust varð í Vestmannaeyjum, Landeyjum og Vík eftir að Rimakotslína 1 leysti út skömmu eftir klukkan fjögur í dag. Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti er svæðið nú keyrt með varaafli og ættu því flestir að vera komnir aftur með rafmagn. Bilunin er líklega vegna veðurs.  

Upp komst um bilunina í Rimakotslínu 1 klukkan 16:05 en þegar í stað var hafist handa við að ræsa varaafl í Vestmannaeyjum. Það var komið á um klukkan fimm að sögn Steinunnar Þorsteinsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsnets. 

„Það er búið að keyra varaafl í Vestmannaeyjum og Vík og Landeyjum þannig það ættu allir að vera komnir inn nema hluti af Vestmannaeyjum, það eru einhverjar mínútur í það,“ segir hún. 

„Það er ekki búið að gera við línuna sem fór út en við erum að senda fólk á staðinn til að skoða þetta en það er snælduvitlaust veður á svæðinu,“ segir hún enn fremur.

Appelsínugul viðvörun er nú í gildi á Suður- og Suðausturlandi en líklegast er bilunin tilkomin vegna veðurs. Ekki hafa komið upp truflanir annars staðar í kerfum Landsnets. 

„Það er verið að leita að biluninni og á meðan er svæðið keyrt með varaafli þannig það ættu allir að vera komnir með rafmagn eða að detta inn mjög fljótlega,“ segir Steinunn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×