Fótbolti

Fjórir af sjö nýjum leik­mönnum Chelsea geta ekki tekið þátt í Meistara­deildinni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mykhailo Mudryk er einn af sjö leikmönnum sem Chelsea krækti í í janúarglugganum.
Mykhailo Mudryk er einn af sjö leikmönnum sem Chelsea krækti í í janúarglugganum. Clive Howes - Chelsea FC/Chelsea FC via Getty Images

Enska úrvalsdeildarfélagið Chelsea þarf að velja og hafna leikmönnum þegar kemur að því að skrá 25 manna hóp sem getur tekið þátt í Meistaradeild Evrópu. 

Eftir viðburðarríkan félagsskiptaglugga þar sem Chelsea gekk frá kaupum á sjö leikmönnum fær Graham Potter, knattspyrnustjóri liðsins, nú að glíma við þann hausverk að ákveða hverjir af þessum sjö leikmönnum verða teknir inn í 25 manna hóp félagsins í Meistaradeild Evrópu.

Liðið fékk þá Joao Felix, Mykhalo Mudryk, Benoit Badiashile, Noni Madu­eke, Dav­id Datro Fof­ana og And­rey Santos til félagsins í janúar og þá verður nýkrýndi heimsmeistarinn Enzo Fernandez líklega kynntur til leiks síðar í dag.

Af þessum sjö leikmönnum mega þó aðeins þrír koma inn í Meistaradeildarhóp Chelsea. Félagið þarf að vera búið að gefa út 25 manna hóp fyrir leik liðsins gegn Borussia Dortmund í 16-liða úrslitum keppninnar þann 15. febrúar næstkomandi, en félög mega aðeins gera þrjár breytingar á hópnum sem tók þátt í riðlakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×