„Þetta eru stór tíðindi. Ef af yrði þá væri líklega um að ræða stærsta samruna í Íslandssögunni. Íslandsbanki er með 230 milljarða markaðsvirði, Kvika 90 og ríkissjóður er stærsti hluthafinn í Íslandsbanka með 42 prósenta hlut. Það gerir þetta áhugaverðara en ella,“ sagði Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja, þegar rætt var við hann um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Fyrr í dag var greint frá því að stjórn Kviku hefði óskað eftir því við stjórn Íslandsbanka að hefja samrunaviðræður. Hörður telur líklegt að þessir hlutir hafi verið ræddir á bak við tjöldin að undanförnu.
„Ég myndi halda að Kvika sé búin að vera að skoða þetta síðustu vikur og það er augljóst að þeir vænta svars frá stjórn Íslandsbanka í næstu viku. Það er alveg gefið að stjórn Íslandsbanka muni samþykkja það. Það hafa líklega verið samtöl við stjórnarmenn Íslandsbanka um málið.“
Hann segir ávinning bankanna af samruna aðallega felast í hagræðingu, þar sem íslenska bankakerfið sé dýrt.
„Rekstrarkostnaður á alla hefðbundna mælikvarða í íslenska bankakerfinu er mikill í samanburði við önnur lönd. Þannig að ég myndi halda að fyrst og fremst sé Kvika að horfa til þess að hægt sé að ná fram einhverju rekstrarhagræði í stórum banka,“ sagði Hörður.
Muni taka langan tíma hjá Samkeppniseftirlitinu
Mesta óvissan snúist um hvernig Samkeppniseftirlitið komi til með að snúa sér í málinu.
„Það er ljóst að þetta mun taka langan tíma í meðferð Samkeppniseftirlitsins. Tvö atriði sem menn horfa kannski einkum til að séu þyrnir í augum Samkeppniseftirlitsins er að Kvika er með Lykil, bíla og tækjafjármögnun, Íslandsbanki er með Ergo [fjármögnunarþjónustu]. Það er líklegt að Samkeppniseftirlitið sé ekki hlynnt því að þetta verði undir einu félagi. Í öðru lagi eru Kvika og Íslandsbanki með mjög stór eignastýringafélög og það gæti líklega verið líklegt að það geti valdið vandræðum í meðferð Samkeppniseftirlitsins.“ sagði Hörður.
Innherji er viðskiptamiðill á vegum Vísis.