Selfyssingar unnu virkilega sterkan þriggja marka sigur er liðið tók á móti Haukum í Olís-deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur 31-28 og Selfyssingar stökkva úr áttunda sæti og upp í það fimmta.
Gestirnir voru sprækari í upphafi leiks og skoruðu fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins. Um tíma leit út fyrir að Guðmundur Hólmar Helgason væri sá eini sem gæti skorað í liði Selfyssinga, en hann skoraði fyrstu fjögur mörk liðsins.
Haukar náðu fljótt þriggja marka forskoti og Selfyssingar náðu í raun aldrei að brúa það bil áður en fyrri hálfleiknum lauk. Andri Már Rúnarsson fór fyrir Haukaliðinu í fyrri hálfleik og skoraði sex mörk, þar af allavega tvö af gólfinu yfir varnartröllið Sverri Pálsson sem er ábyggilega 15 sentímetrum hærri en Andri.
Þrátt fyrir fína frammistöðu frá Vilius Rasimas í marki Selfyssinga skoruðu Haukarnir 19 mörk í fyrri hálfleik gegn 15 mörkum heimamanna og gestirnir höfðu því fjögurra marka forskot þegar liðin gengu til búningsherbergja.
Heimamenn mættu betur stilltir til leiks í síðari hálfleik og söxuðu jafnt og þétt á forskot Haukamanna. Þegar um fimm mínútur voru liðnar af hálfleiknum höfðu Haukar enn þriggja marka forskot, en þá tók við góður kafli Selfyssinga þar sem liðið skoraði fimm mörk í röð og náði tveggja marka forskoti.
Haukarnir lögðu þó ekki árar í bát og jöfnuðu metin á ný í stöðunni 26-26 og Andri Már Rúnarsson kom liðinu yfir á nýjan leik í stöðunni 26-27 þegar tæpar tíu mínútur voru til leiksloka.
Þá virtist tankurinn hins vegar vera orðinn hálf tómur hjá gestunum og með markvörðinn Vilius Rasimas í banastuði fyrir aftan vörnina sigldu Selfyssingar mikilvægum þriggja marka sigri heim á lokamínútunum, lokatölur 31-28.
Af hverju vann Selfoss?
Selfyssingar fundu taktinn varnarlega í síðari hálfleik og ekki skemmdi fyrir að Vilius Rasimas varði eins og óður maður í markinu. Eftir að hafa fengið á sig 19 mörk í fyrri hálfleik sá vörn Selfyssinga til þess að Haukarnir skoruðu aðeins níu mörk í þeim síðari og það varð til þess að liðið vann þennan sigur.
Hverjir stóðu upp úr?
Vilius Rasimas átti stórgóðan leik í marki Selfyssinga og varði hvorki fleiri né færri en tuttugu skot. Það gerir 42 prósent hlutfallsvörslu og átti litháíski markvörðurinn stóran þátt í sigri heimamanna.
Þá var Guðmundur Hólmar Helgason drifkrafturinn sóknarlega hjá Selfyssingum lengi vel og skoraði níu mörk úr tólf skotum. Guðjón Baldur Ómarsson skilaði sínu hlutverki í horninu einnig vel og skoraði átta mörk úr níu skotum.
Í liði Hauka var Andri Már Rúnarsson atkvæðamestur með níu mörk, en hann þurftu þó 18 skot til að skora þessi níu mörk.
Hvað gekk illa?
Eins og Haukarnir voru góðir sóknarlega í fyrri hálfleik þá voru þeir jafn slappir í þeim síðari. Liðið skoraði aðeins níu mörk eftir hálfleikshléið og þó að það hafi komið kafli þar sem liðinu gekk vel að ráða við sókn Selfyssinga í síðari hálfleik var það ekki nóg til að halda forskotinu sem liðið hafði byggt upp í fyrri hálfleik.
Þórir: „Eins og menn nenntu ekki alveg að spila vörn“
Þórir Ólafsson, þjálfari Selfyssinga, var eðlilega mjög sáttur eftir sigur sinna manna í kvöld. Hann hrósaði liðinu sérstaklega fyrir það hvernig menn komu inn í seinni hálfleikinn eftir hálf dapran fyrri hálfleik.
„Við erum klárlega mjög sáttir með þessa tvo punkta í kvöld. Þetta var erfið byrjun og það var ekki alveg kveikt á mönnum í fyrri hálfleik þar sem við spiluðum ekki nógu góða vörn en sóknarleikurinn var allt í lagi. En svo kviknaði á okkur í seinni og í varnarleiknum sérstaklega og Vilius [Rasimas] fyrir aftan. Þannig að þetta var bara virkilega gott, sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Þórir að leikslokum.
Eins og Þórir nefnir var Vilius Rasimas frábær í liði Selfyssinga í kvöld og af þeim tuttugu boltum sem hann varði komu tíu í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir það fékk liðið á sig 19 mörk fyrir hálfleikshléið.
„Það var bara einhver miklu meiri vinnsla í mönnum,“ sagði Þórir um breytinguna á liðinu í seinni hálfleik.
„Í fyrri hálfleik var eins og menn nenntu ekki alveg að spila vörn, en svo komum við inn í seinni hálfleikinn og menn voru að loka svæðum og hóta út og gera það bara mjög vel. Við þvinguðum þá í erfiðari skot, lengra fyrir utan og allt þetta, og þá bara small þetta.“
Eftir góða byrjun Selfyssinga í síðari hálfleik lenti liðið í erfiðleikum með vörn gestanna þegar Haukarnir mættu framar á völlinn og Þórir viðurkennir að framliggjandi vörn sé eitthvað sem Selfossliðið á í erfiðleikum með.
„Við höfum stundum strögglað á móti framliggjandi, en við erum samt að skora 15 eða 16 í hvorum hálfleik fyrir sig. Það voru nokkrar sóknir þar sem höndin kom upp og það er eitthvað sem við þurfum bara að vinna í.“
Með sigrinum í kvöld stukku Selfyssingar úr áttunda sæti og upp í það fimmta í Olís-deildinni. Pakkinn frá þriðja sæti og niður í það tíunda er þéttur og Þórir segir það mikilvægt að hafa tekið tvö stig gegn liði sem Selfyssingar eru, og verða, í harðri baráttu við.
„Alveg hundrað prósent. Það var líka mikilvægt að vinna þá með meira en einu marki og eiga innbyrðis á þá. Þetta er þéttur pakki og það er stutt upp í þriðja sæti með einhverjum tveim til þrem punktum. Þannig að við verðum bara að reyna að halda áfram þessari baráttu og liðsanda sem var í dag. Við sýndum það í dag, og sérstaklega í seinni hálfleik, að ef við náum að standa saman og allir eru að vinna fyrir hvern annan þá getum við gert virkilega vel og mig langar bara að hrósa strákunum fyrir góða spilamennsku og góðan liðsanda hérna í dag,“ sagði Þórir að lokum.
Ásgeir: „Við bara höndluðum það ekki vel að byrja þetta vel“
Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var eðlilega súr eftir tap liðsins í kvöld. Hann segir að seinni hálfleikurinn hafi farið með liðið.
„Við vorum bara slakir í seinni hálfleik. Við gefum allt of mikið eftir og eigum rosalega erfitt með að skora mörk. Þar lá þetta bara,“ sagði Ásgeir í leikslok.
Þá segir Ásgeir að Vilius Rasimas hafi reynst sínum mönnum erfiður í kvöld, en að mögulega hafi Haukarnir verið sjálfum sér verstir.
„Hann ver allavega fjögur dauðafæri síðustu tíu mínúturnar og auðvitað er það dýrt. Mér fannst við alveg skapa þokkalega framan af í leiknum en svo fer þetta allt bara í stopp seinustu tuttugu mínúturnar og í rauninni allan seinni hálfleikinn.“
„Mín tilfinning núna er bara að við gerum illa þegar við erum komnir yfir. Við spiluðum ótrúlega flottan fyrri hálfleik en svo spilum við eiginlega bara jafn slæman seinni hálfleik. Við bara höndluðum það ekki vel að byrja þetta vel.“
Ásgeir segir einnig að það sé extra dýrt að tapa stigum gegn liði sem sitji á svipuðum stað og Haukar í deildinni og viðurkennir að lið á borð við Hauka sé með of fá stig á þessum tímapunkti mótsins.
„Við erum bara að reyna að safna einhverjum stigum og erum með allt of fá stig. Hvort sem þau koma hér eða einhvers staðar annars staðar, ég tek þau alls staðar. Þetta er þéttur pakki og við erum að berjast á svipuðu svæði annig það er kannski extra dýrt.“
Að lokum var Ásgeir spurður út í nýjan leikmann Hauka sem gekk í raðir félagsins frá Selfyssingum í lok seinasta mánaðar. Sigurður Snær Sigurjónsson færði sig frá Selfossi yfir í Hafnarfjörðinn, en var ekki með Haukunum í kvöld.
„Hann kom til okkar núna og ef hann stendur sig vel og æfir vel þá er hann bara í séns eins og allir aðrir. En við erum með fullt af flottum strákum sem eru að æfa og spila vel þannig það er bara samkeppni og hann kemur bara inn í það,“ sagði Ásgeir að lokum.