Viðskipti innlent

Öðru sinni dæmdur fyrir stór­felld skatta­laga­brot á innan við ári

Atli Ísleifsson skrifar
Maðurinn var eigandi og framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis sem nú er gjaldþrota.
Maðurinn var eigandi og framkvæmdastjóri verktakafyrirtækis sem nú er gjaldþrota. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt framkvæmdastjóra og einn eiganda verktakafyrirtækis í tólf mánaða fangelsi og greiðslu um 207 milljóna króna sektar fyrir stórfelld skattalagabrot.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa ekki greitt virðisaukaskatt eða þá staðgreiðslu opinberra gjalda á árunum 2019 til 2021. Ógreiddur virðisaukaskattur nam 23,4 milljónir króna og þá stóð hann ekki skil á staðgreiðslu, samtals að fjárhæð 78 milljónum króna.

Fresta skal fullnustu tólf mánaða fangelsisrefsingarinnar og hún niður falla, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár. Hann játaði skýlaust brot sín og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar. Þó leit dómari einnig til þess að um háar fjárhæðir væri að ræða.

Þetta er í annað sinn á innan við ári sem maðurinn er dæmdur fyrir skattalagabrot en í apríl síðastliðinn var hann dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, auk greiðslu 127 milljóna króna sektar til ríkissjóðs.

Brotin sem maðurinn var dæmdur fyrir nú voru framin fyrir uppsögu dómsins í apríl síðastliðinn og er því um hegningarauka að ræða.

Sektargreiðsla var ákvörðuð tæpar 207 milljónir króna og mun koma til 360 daga faneglsi í stað sektarinnar, verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.

Manninum var einnig gert að greiða rúmlega 200 þúsund króna þóknun til skipaðs verjanda síns.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×