Hamarsmenn hafa verið á gríðarlegri siglingu undanfarnar vikur og mánuði í 1. deild karla og hafði liðið unnu tíu leiki í röð fyrir leik kvöldsins.
Það voru þó gestirnir frá Álftanesi sem höfðu yfirhöndin framan af leik og leiddu með þremur stigum að loknum fyrsta leikhluta, 26-29. Álftanes náði svo mest tólf stiga forskoti í öðrum leikhluta, en Hamarsmenn snéru taflinu við fyrir hálfleikshléið og fjórtán stiga sveifla skilaði þeim tveggja stiga forskoti þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 51-49.
Síðari hálfleikur var ekki síður sveiflukenndur og heimamenn náðu tíu stiga forskoti í upphafi þriðja leikhluta. Gestirnir náðu svo góðu áhlaupi áður en leikhlutinn rann sitt skeið, en Hamarsmenn náðu tökum á leiknum á ný í fjórða leikhlua og unnu að lokum mikilvægan sjö stiga sigur, 98-91.
Jose Medina Aldana var stigahæstur í liði Hamars með 24 stig, en í liði Álftaness var Dúi Þór Jónsson atkvæðamestur með 29 stig. Hamar og Álftanes sitja nú hlið við hlið í fyrsta og öðru sæti deildarinnar, bæði með 34 stig eftir 20 leiki.