Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir frá nokkrum stöðum vestanlands í dag, eins og úr Helgafellssveit á Snæfellsnesi þar sem Ragnar Axelsson ljósmyndari var á ferð.
Hvassviðri með hlýnandi veðri og mikilli úrkomu varð til þess að snjór bráðnaði hratt og vatnselgurinn flæddi yfir tún og vegi.
Frá Tálknafirði fengum við myndir frá björgunarsveitunum Tálkna og Blakki. Þar var hin meinlitla Tunguá orðin að aurugu stórfljóti og flæddi yfir Strandgötu með tilheyrandi vegaskemmdum og var gatan lokuð allri umferð.
Í Borgarfirði, sérstaklega á vatnasviði neðri hluta Hvítár, flæðir víða yfir vegi, einnig í Norðurárdal og varaði Vegagerðin við því að Norðurá gæti flætt yfir hringveginn.
Fréttir berast raunar af vatnavöxtum af öllu vestanverðu landinu en einnig af krapaflóðum og skriðum, eins og á Gemlufalli í Dýrafirði og úr Saurbæ í Dölum, þaðan sem við fengum myndir í dag, en þar höfðu Hvolsá og Staðarhólsá breyst í ólgandi fljót.
Og borgarbúar fara ekki varhluta af flóðunum. Frá Suðurlandsvegi við Rauðhóla mátti sjá hvar Hólmsá og Bugða flæddu yfir yfir bakka sína. Austan við Norðlingaholtshverfi var eins og yfir hafsjó að líta og það var rétt með naumindum að Bugða kæmist undir brúna á reiðveginum.
Á vatnasviði Elliðaánna flæddi víða yfir vegi. Þannig var Heiðmerkurverkur undir vatni á nokkurhundruð metra kafla á móts við Helluvatn, milli Rauðhóla og Elliðavatnsbæjarins.
Það var í raun á mörkunum að vegurinn upp í Heiðmörk teldist fær en þar sagðist Gústaf Jarl Viðarsson, skógfræðingur hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur, vera að upplifa ótrúlega mikla vatnavexti.
„Það er búið að flæða yfir veginn hérna. Og maður sér brúna, þar er komið mjög hátt upp.
Ég hef ekki séð þetta svona áður. Allavega þetta hefur ekki komið fyrir síðastliðin tíu ár,“ sagði Gústaf.
„Þetta er líklega vegna þess að það hafa verið svo mikil frost að vatnið nær ekki að seytla niður í gegnum jarðveginn. Þess vegna safnast þetta svona fyrir.“
Í Víðidal flæddu Elliðaár yfir göngustíga og reiðstíga og þær voru í miklum ham við Árbæjarstíflu. Ofan hennar gátu menn svo séð Árbæjarlónið birtast á ný.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Myndskeið frá Tálknafirði má sjá sér: