Körfubolti

Elvar og félagar unnið fimm í röð eftir risasigur

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu.
Elvar Már Friðriksson í leik með íslenska landsliðinu. Bára Dröfn

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Rytas Vilnius eru á flugi í litháísku deildinni í körfubolta eftir að liðið vann öruggan 35 stiga sigur gegn Pieno Zvaigvdes í kvöld, 72-107. Þetta var fimmti deildarsigur liðsins í röð.

Heimamenn í Pieno Zvaigvdes skoruðu fyrstu tvö stig leiksins, en eftir það tóku Elvar og félagar öll völd á vellinum. Liðið skoraði fimmtán stig í röð og setti tóninn fyrir það sem koma skyldi. Mest náðu Elvar og félagar 21 stigs forskoti í fyrsta leikhluta, en staðan var 11-26 að honum loknum.

Eftir nokkuð jafnan leik í öðrum leikhluta spýttu gestirnir í Rytas í lófana og leiddu með 30 stigum þegar liðin gengu til búningsherbergja inn í hálfleikshléið, staðan 32-62.

Síðari hálfleikurinn var því hálfgert formsatriði fyrir Elvar og félaga sem náðu mest 40 stiga forskoti um miðbik þriðja leikhluta. Heimamenn voru aldrei nálægt því að ógna forskoti Rytas og niðurstaðan var afar öruggur 35 stiga sigur gestanna, 72-107.

Elvar spilaði rúmlega 18 mínútur í leik kvöldsins og skilaði tíu stigum og sex stoðsendingum fyrir gestina. Rytas situr í öðru sæti litháísku deildarinnar með 15 sigra og fjögur töp, einum sigri á eftir toppliði Zalgiris Kaunas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×