Daníel Freyr hefur verið viðloðandi landsliðið síðustu ár en hann hefur tvisvar verið valinn besti markvörður efstu deildar á Íslandi. Daníel er uppalinn í FH og varði mark FH þegar félagið varð síðast Íslandsmeistari árið 2011.
Daníel Freyr hefur spilað í atvinnumennsku í Danmörku og Svíþjóð fyrir utan tvö tímabil með Valsmönnum. Hann lék síðast með Lemvig-Thyborøn Håndbold í Danmörku.
Spennandi tímar í Krikanum
„Það er frábær tilfinning að vera á leiðinni heim aftur. Mér fannst vera kominn tími á það að fara heim og ljúka þessum tíma í útlöndum. Það eru líka mjög spennandi tímar framundan í Krikanum sem gerði þetta enn auðveldara,“ sagði Daníel Freyr í samtali við Val Pál Eiríksson.
Aron Pálmarsson er líka á leiðinni aftur heim í FH og Daníel segir að það hafi haft áhrif á ákvörðun hans.
„Já að sjálfsögðu hjálpaði það eða flýtti alla vegar ákvörðuninni. Það gerði þetta enn meira spennandi og það verður bara geggjað,“ sagði Daníel.
Hvað er í gangi í Hafnarfirðinum sem heillar?
Spila aftur fyrir sitt fólk
„Þeir eru með núna með gott lið fyrir, ungt og spennandi lið. Þeir eru búnir að vera að spila vel í deildinni í ár. Þegar þú bætir Aroni inn í það þá verður þetta mjög spennandi,“ sagði Daníel.
„Ég er líka að fara heim i FH og það var kominn tími á það. Fara aftur heim í Krikann og spila þar fyrir mitt fólk,“ sagði Daníel.
Mörg lið orðin þreytt á Val
Valsmenn hafa verið óstöðvandi í handboltanum síðustu ár og unnið alla titla í boði. Menn eru væntanlega orðnir þreyttir á því í Hafnarfirðinum.
„Ég reikna með því að það séu mörg lið á Íslandi sem eru orðin þreytt á þessu. Við munum gera okkar besta til að stoppa Valsarana,“ sagði Daníel en það má sjá allt viðtalið við hann hér fyrir neðan.