Fótbolti

Ramos bað ljósmyndarann sem hann ýtti við afsökunar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sergio Ramos hljóp kapp í kinn eftir tapið fyrir Bayern München.
Sergio Ramos hljóp kapp í kinn eftir tapið fyrir Bayern München. vísir/getty

Sergio Ramos, leikmaður Paris Saint-Germain, hefur beðið ljósmyndarann sem hann stjakaði við eftir leikinn gegn Bayern München afsökunar. Ljósmyndarinn segir málinu lokið.

Bayern vann PSG, 0-1, í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu á þriðjudaginn. Ramos var pirraður eftir leikinn og ýtti við ljósmyndaranum Markus Gilliar. Myndband af atvikinu fór í dreifingu á samfélagsmiðlum og vakti mikla athygli.

Ramos hefur nú beðið Gilliar afsökunar á að hafa stjakað við honum. Ljósmyndarinn greindi frá þessu á Instagram.

„Óvænt tíðindi. Í gærkvöldi hafði Sergio Ramos persónulega samband við mig og baðst afsökunar á framkomu sinni. Afsökunarbeiðni samþykkt, málinu lokið,“ skrifaði Gilliar. Ramos deildi svo fréttum af eigin afsökunarbeiðni á Instagram.

Ramos lék allan leikinn gegn Bayern. Kingsley Coman skoraði eina mark leiksins á 53. mínútu. Liðin mætast öðru sinni í München 8. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×