Fótbolti

Mourinho púaði á vítaskyttu og bað sína menn að gera sér upp meiðsli í krakkaleik Roma og Lazio

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho fagnaði með ungu Rómverjunum eftir sigurinn á Lazio.
José Mourinho fagnaði með ungu Rómverjunum eftir sigurinn á Lazio. roma

Eftir að hafa verið rekinn af velli í þriðja sinn á tímabilinu er José Mourinho, knattspyrnustjóri Roma, aftur búinn að koma sér í fréttirnar fyrir vafasama hegðun.

Á sunnudaginn var Mourinho áhorfandi á leik U-14 ára liða Roma og Lazio þar sem hann fór mikinn og verulega í taugarnar á þjálfurum Lazio.

Samkvæmt ítölskum fjölmiðlum púaði Mourinho á leikmann Lazio þegar hann tók vítaspyrnu og þá hvatti hann leikmenn Roma til að leggjast í grasið og gera sér upp meiðsli til að tefja leikinn eftir að þeir komust yfir. Roma vann leikinn, 2-1.

Tveimur dögum eftir þetta fékk Mourinho rautt spjald þegar Roma tapaði fyrir Cremonese, 2-1, í ítölsku úrvalsdeildinni.

Mourinho var verulega ósáttur við fjórða dómara leiksins og sagði hann hafa talað á óviðunandi hátt við sig. 

„Ég er tilfinningaríkur en ekki brjálaður. Í fyrsta sinn á ferlinum talaði dómari á óafsakanlegan hátt við mig,“ sagði Mourinho eftir leikinn.

Mourinho er á sínu öðru tímabili með Roma. Liðið er í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 44 stig, einu stigi á eftir Lazio sem er í 4. sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×