Snæfríður synti 100 metra skriðsund á 55,61 sekúndu í dag og bætti þar með 14 ára gamalt Íslandsmet Ragnheiðar Ragnarsdóttur. Snæfríður bætti metið er hún synti fyrsta sprettinn í 4x100 metra skriðsundi, en sveit hennar fagnaði sigri á mótinu.
Þá varð Snæfríður fyrst íslenskra kvenna til að synda 200 metra skriðsund á undir tveimur mínútum fyrr í dag. Snæfríður kom í mark á 1:59,75 og bætti því eigið Íslandsmet sem hún setti á Ólympíuleikunum í Tókýó.
Snæfríður fagnaði einnig sigri í 200 metra skriðsundi og hefur því sigrað tvær greinar og slegið tvö Íslandsmet á einum degi.
Hún fær svo tækifæri til að bæta Íslandsmetið í 100 metra skriðsundi enn frekar þegar hún keppir í vegalengdinni í einstaklingskeppni á morgun.