Göngu­túr í garðinum hjá Ben­fi­ca sem fór örugg­lega á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir komu mikið við sögu í kvöld.
Þessir tveir komu mikið við sögu í kvöld. EPA-EFE/ANTONIO COTRIM

Benfica er komið áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir öruggan 5-1 sigur á Club Brugge í Portúgal í kvöld. Benfica vann fyrri leik liðanna 2-0 og einvígið samtals 7-1. Fyrir leik kvöldsins var ekki reiknað með að Club Brugge yrðu til of mikilla vandræða fyrir sprækt lið Benfica. Það var þó ef til vill ekki reiknað með jafn öruggum sigri og raun bar vitni.

João Mário kom Benfica yfir strax á 2. mínútu með glæsilegu hælspyrnu marki en það var dæmt af vegna rangstöðu í aðdraganda marksins. Heimamenn höfðu mikla yfirburði og brutu á endanum ísinn þegar Rafa Silva skoraði á 38. mínútu eftir undirbúning Gonçalo Ramos.

Ramos skoraði svo annað mark Benfica þegar tvær mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik. João Mário með stoðsendinguna og staðan 2-0 í hálfleik.

Ramos skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Benfica þegar tæp klukkustund var liðin eftir sendingu Alejandro Grimaldo. Þegar 20 mínútur voru til leiksloka fengu heimamenn vítaspyrnu. João Mário fór á punktinn og kom Benfica í 4-0. 

Varamaðurinn David Neres skoraði svo fimmta markið skömmu síðar eftir undirbúning hins 18 ára gamla João Neves sem hafði einnig komið af bekknum. Bjorn Meijer minnkaði muninn í 5-1 þegar þrjár mínútur voru til lka venjulegs leiktíma. 

Sárabótamark allra sárabótamarka en Benfica vann leikinn 5-1 og fór eins örugglega og hægt er áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira