Körfubolti

Á leið í 50 leikja bann verði hann fundinn sekur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ja Morant, stórstjarna Memphis Grizzlies, gæti misst af því sem eftir lifir tímabils.
Ja Morant, stórstjarna Memphis Grizzlies, gæti misst af því sem eftir lifir tímabils. Justin Ford/Getty Images

Ja Morant, leikmaður Memphis Grizzlies í NBA-deildinni, gæti verið á leiðinni í 50 leikja bann fyrir að vera í „gangsteraleik.“

Hinn 23 ára gamli Morant, stjarna Memphis-liðsins sem situr um þessar mundir í 2. sæti Vesturdeildar, er heldur betur kominn í hann krappan. Morant birti myndband af sér á Instagram-síðu sinni þar sem hann veifar byssu á skemmtistað. 

Ekki nóg með það heldur er hann sakaður um að kýla ungmenni og hóta öryggisverði í verslunarmiðstöð.

Forráðamenn Memphis ákváðu að Morant færi í tveggja leikja bann meðan atvikið væri skoðað. Það gæti hins vegar farið svo að bannið verði mun lengra.

Samkvæmt reglugerð NBA-deildarinnar er stranglega bannað að vera vopnaður á því sem flokkast sem yfirráðasvæði félaganna. Á það við um allt frá æfingasvæði þeirra til flugvélanna sem ferðast er með.

Rannsókn er hafin á því hvort byssunni sem veifað var á skemmtistaðnum hafi verið í fórum Morant þegar hann steig inn í flugvél Memphis-liðsins. Ef það var raunin þá á hann yfir höfði sér 50 leikja bann sem þýðir að hann mun missa af því sem eftir lifir tímabils, sama hversu langt Memphis fer í úrslitakeppninni.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×