Fótbolti

Albert valinn besti leikmaður umferðarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Albert Guðmundsson er að spila frábærlega þessa dagana með ítalska liðinu Genoa sem er á góðri leið með að endurheimta sæti sitt í Seríu A.
Albert Guðmundsson er að spila frábærlega þessa dagana með ítalska liðinu Genoa sem er á góðri leið með að endurheimta sæti sitt í Seríu A. Getty/Simone Arveda

Albert Guðmundsson var valinn besti leikmaður síðustu umferðar í Seríu B á Ítalíu en deildin gaf þetta út á miðlum sínum.

Albert átti frábæran leik þegar Genoa vann 4-0 sigur á Cosenza en liðið er sem stendur í öðru sæti ítölsku b-deildarinnar.

Albert skoraði eitt mark í leiknum og lagði upp tvö.

Albert lagði upp fyrsta marki Genoa sem Radu Dragusin skoraði með skalla eftir aukaspyrnu Alberts á 33. mínútu. Albert kom Genoa síðan í 2-0 með marki á 57. mínútu.

Albert var ekki hættur því ellefu mínútum fyrir leikslok þá lagði hann upp fjórða mark Genoa sem Filip Jagiello skoraði. Albert fékk í kjölfarið heiðursskiptingu.

Þessi leikur var áframhald á frábærri frammistöðu Alberts eftir að deildin fór á stað á ný eftir HM-fríið.

Albert hefur síðan spilað ellefu deildarleiki með Genoa, skoraði fimm mörk og lagt upp önnur þrjú. Hann hefur skorað þrjú mörk í síðustu fimm leikjum og Genoa hefur unnið alla sex deildarleikina á leiktíðinni þar sem hann hefur verið á skotskónum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×