Körfubolti

Óttast að Durant verði fjarri góðu gamni fram að úr­slita­keppni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Durant verður frá næstu vikurnar.
Durant verður frá næstu vikurnar. Ron Jenkins/Getty Images

Kevin Durant, leikmaður Phoenix Suns í NBA-deildinni í körfubolta, meiddist í upphitun fyrir það sem hefði verið hans fyrsti heimaleikur fyrir félagið. Óttast er að hann verði frá þangað til úrslitakeppnin fari af stað.

Hinn 34 ára gamli Durant skipti til Suns skömmu áður en félagaskiptaglugginn í NBA-deildinni lokaði. Sannkölluð risaskipti þar sem Durant er án efa einn besti leikmaður deildarinnar þegar hann er heill.

Hann var tiltölulega nýkominn til baka úr meiðslum og hafði spilað þrjá útileiki áður en það kom að því sem átti að vera hans fyrsti heimaleikur fyrir Suns. Hans fyrrum lið, Oklahoma City Thunder, var í Phoenix og eftirvæntingin mikil.

Durant sneri sig hins vegar á vinstri ökkla í upphitun og verður frá næstu þrjár vikurnar hið minnsta. Svartsýnni spámenn telja að Durant muni ekki spila annan leik fyrr en úrslitakeppnin fer af stað deildarkeppni NBA-deildarinnar lýkur þann 9. apríl næstkomandi.

Suns eru sem stendur í 4. sæti Vesturdeildar eftir að hafa unnið 7 af síðustu 10 leikjum sínum. Liðið gæti náð 2. sæti án Durant en nær ómögulegt er að spá fyrir um hvaða liði þeir mæta í úrslitakeppninni.

Það er þó ljóst að liðið gæti lent í vandræðum ef Durant mætir ískaldur og ryðgaður til leiks í úrslitakeppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×