Það hefur mikið verið byggt við Hlíðarenda í Reykjavík á síðustu árum og hverfið hefur stækkað hratt. Fyrir tveimur mánuðum var svo fyrsta matvöruverslunin í hverfinu opnuð en hún heitir OK.
Það eru þrír vinir sem eiga og reka verslunina. Þegar við litum við stóðu tveir þeirra vaktina en sá þriðji var nýfarinn heim. Mustafa, einn þremenninganna, var sautján ára þegar hann kom frá Írak til Íslands og hefur búið hér á landi í fimmtán ár. Meðeigendur hans þeir, Ahmad og Ahmed, eru hins vegar frá Sýrlandi. Þeir félagarnir kynntust á Íslandi og hafa verið vinir í nokkur ár.
„Við vorum bara að keyra um þetta hverfi og sáum að það var engin búð hér, engin verslun. Vinur minn býr líka hinu megin í blokk og við vorum að spjalla saman og hann sagði mér að þegar hann vill versla fari hann út á Granda eða í Skeifuna og þá kom þessi hugmynd að opna hér,“ segir Mustafa Alhamoodi.

Enginn þeirra hafði áður rekið matvöruverslun en þeim fannst hugmyndin of góð til að láta það stoppa sig. Til að vöruúrvalið sé sem best eru þeir með stílabók sem þeir skrifa í vörur sem spurt er um og ekki eru til svo þeir geti svo keypt þær inn.
Þeir segja staðsetninguna góða þar sem hótel er rétt hjá og Háskólinn í Reykjavík. Opnunartími búðarinnar er sjö til tólf á kvöldin svo vinnudagarnir eru oft langir hjá þeim félögunum en sem stendur eru þeir einu starfsmenn búðarinnar.
Þá hafa nágrannarnir hafa tekið þeim mjög vel og segja þeir þá duglega að koma í búðina.