Handbolti

Aftur unnu Danir öruggan sigur á Þjóðverjum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Johannes Golla og Mathias Gidsel takast á í leiknum.
Johannes Golla og Mathias Gidsel takast á í leiknum. Vísir/Getty

Danir unnu í dag þægilegan sigur á Þjóðverjum þegar liðin mættust í EHF bikarnum en leikurinn fór fram í Hamborg.

Liðin mættust á fimmtudag í Álaborg þar sem Danir unnu sjö marka sigur 30-23. Í dag var komið að leik liðanna í Þýskalandi en Danir hafa ekki spilað á sínu sterkasta liði í leikjunum.

Emil Nielsen, þriðji markvörður landsliðsins, átti aftur frábæran leik í fjarveru Niklas Landin og Kevin Möller. Hann var kominn með 15 varða bolta eftir fimmtíu mínútna leik og var maðurinn á bakvið frábæran sigur Dana.

Vörn heimsmeistaranna með Simon Hald í broddi fylkingar hélt Þjóðverjum í tíu mörkum í fyrri hálfleik en að honum loknum leiddi Danmörk 14-10.

Þjóðverjar bitu frá sér í upphafi síðari hálfleiks en þegar Danir náðu takti í liðið á nýjan leik juku þeir forskotið. Mathias Gidsel var góður í sókninni og bjó til færi fyrir samherja sína.

Lokatölur í dag 28-21, annar sjö marka sigur Dana staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×