Sport

Hefur ekki á­hyggjur ef Conor er í formi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Conor og Gunnar á góðri stundu.
Conor og Gunnar á góðri stundu. Getty Images

Gunnar Nelson er klár í slaginn en hann mætir Bryan Barberena á bardakvöldi UFC 286 sem fram fer í Lundúnum á laugardaginn kemur. Á blaðamannafundi í dag var Gunnar spurður út í sinn fyrrverandi æfingafélaga Conor McGregor.

Conor mætir Bandaríkjamanninum Michael Chandler síðar á þessu ári í því sem verður fyrsti bardagi Conor síðan hann braut beint í fætinum í bardaga gegn Dustin Poirier árið 2021. Það er styttra síðan Gunnar keppti síðast en fyrir ári síðan lagði hann Japanann Takashi Sato.

Það er greinilegt að möguleg endurkoma Conor er ofarlega í hugum blaðamanna og var Gunnar spurður út í hinn 35 ára gamla Íra og möguleika hans í bardaganum síðar á þessu ári.

„Þetta er áhugaverð viðureign. Ef Conor æfir almennilega og er í formi þá mun hann ganga frá honum [e. kick the shit out of him].“

Þá var Gunnar spurður út í samskipti hans og Conor þessa dagana.

„Við tölum saman við og við, ekkert of mikið. Á Instagram og þannig. Hann er að gera það sem Conor gerir.“

Bardagi Gunnars fer eins og áður sagði fram á laugardaginn kemur og er hann í fantaformi eftir að hafa æft af miklum krafti undanfarna sex mánuði.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×