Juventus heldur í vonina um Meistara­deildar­sæti

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hetjunni fagnað.
Hetjunni fagnað. Getty Images

Þrátt fyrir að fimmtán stig hafi verið tekin af liðinu þá heldur Juventus enn í vonina um Meistaradeildarsæti að leiktíðinni lokinni. Liðið vann gríðarlega mikilvægan 1-0 útisigur á Inter Milan í kvöld.

Inter tók á móti Juventus á San Siro-vellinum í Mílanó. Með sigri hefðu heimamenn getað stokkið upp í 2. sæti deildarinnar en það hefði ekki breytt miklu í titilbaráttunni þar sem Napoli er þegar komið með níu fingur og tíu tær á titilinn.

Leikur kvöldsins réðst á einu marki og það skoraði Filip Kostić eftir undirbúning Adrien Rabiot á 23. mínútu leiksins. Kostić var nokkuð utarlega vinstra megin í teignum en lét vaða og boltinn söng í netinu.

Það tók dómarateymi leiksins drykklanga stund að staðfesta markið en boltinn fór af hendi leikmanns Juventus í aðdragandanum. Hendin var talin í eðlilegri stöðu og markið stóð.

Inter sótti meira það sem eftir lifði leiks en tókst ekki að brjóta niður þéttan varnarmúr gestanna, lokatölur 0-1.

Inter er því áfram í 3. sæti með 50 stig en þetta var þriðji tapleikur liðsins í síðustu fjórum leikjum. Juventus er í 7. sæti með 38 stig, tíu stigum frá Meistaradeildarsæti en á þó leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira