Fótbolti

Zlatan orðinn elsti markaskorari sögunnar

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic er elsti markaskorari ítölsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.
Zlatan Ibrahimovic er elsti markaskorari ítölsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi. Alessandro Sabattini/Getty Images

Sænski knattspyrnumaðurinn Zlatan Ibrahimovic skráði sig á spjöld sögunnar í gærkvöldi er AC Milan mátti þola 3-1 tap gegn Udinese í ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Zlatan skoraði eina mark Mílanóliðsins af vítapunktinum í uppbótartíma fyrri hálfleiks. Með markinu varð hann elsti markaskorari ítölsku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Framherjinn er fæddur í október árið 1981 og er því 41 árs og 166 daga gamall. Hann bætti met Alessandro Costacurta sem var 41 árs og 25 daga gamall þegar hann skoraði sitt þriðja og síðasta mark fyrir AC Milan í ítölsku úrvalsdeildinni.

Zlatan virtist þó ekkert sérlega ánægður með metið eftir leik, enda mátti lið hans þola 3-1 tap gegn Udinese.

Ríkjandi Ítalíumeistarar AC Milan sitja í fjórða sæti deildarinnar með  48 stig eftir 27 leiki, tuttugu stigum á eftir toppliði Napoli. Udinese situr hins vegar í áttunda sæti með 38 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×