Körfubolti

Jókerinn og Gríska undrið halda á­fram að ein­oka fyrir­sagnirnar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir eru ágætir í körfubolta.
Þessir tveir eru ágætir í körfubolta. Stacy Revere/Getty Images

Nikola Jokić skilaði að venju sínu þegar Denver Nuggets lagði Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt. Atlanta Hawks hentu frá sér 24 stiga forystu í síðari hálfleik og 46 stig Devin Booker dugðu Phoenix Suns ekki til sigurs. Gríska undrið gat ekki leyft Jókernum að einoka fyrirsagnirnar og gerði líka þrennu þar sem hann hitti úr öllum níu skotum sínum.

Línur eru heldur betur farnar að skýrast í NBA-deildinni en það styttist í að deildarkeppninni ljúki og úrslitakeppnin fari af stað. Denver Nuggets, topplið Vesturdeildar, heimsótti Brooklyn Nets og fór Jókerinn á kostum í naumum sigri Denver, lokatölur 102-108.

Jokić bauð upp á þrefalda tvennu, hans 28. á leiktíðinni. Hann skoraði 22 stig, tók 17 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Michael Porter Jr. var þó stigahæstur með 28 stig ásamt því að taka 9 fráköst. Þá skoraði Jamal Murray 25 stig og gaf 8 stoðsendingar í liði Nuggets.

Atlanta Hawks virtust með unninn leik í höndunum gegn San Antonio Spurs. Hawks skoruðu 83 stig í fyrri hálfleik og voru með 24 stiga forystu þegar 3. leikhluti var nýbyrjaður. Á einhvern undraverðan hátt hrundi ekki aðeins sóknarleikur liðsins heldur varnarleikurinn sömuleiðis.

Slakt lið Spurs vann á endanum átta stiga sigur, 126-118. Keldon Johnson og Devin Vassell voru stigahæstir í sigurliðinu með 29 stig hvor á meðan Dejounte Murray skoraði 22 stig í liði Hawks.

Shai Gilgeous-Alexander skoraði 40 stig í fjögurra stiga sigri Oklahoma City Thunder á Phoenix Suns, lokatölur 124-120. Devin Booker skoraði 46 stig í liði Suns en það dugði ekki að þessu sinni.

Suns bíða svo enn eftir að Kevin Durant verði leikfær á ný en ekki er vitað hvort hann nái að snúa aftur áður en úrslitakeppnin hefst.

Austin Reaves bjargaði Los Angeles Lakers í naumum sex stiga sigri á slöku liði Orlando Magic. Leiknum lauk með 111-105 sigri Lakers, þar af skoraði Reaves 35 stig á aðeins 30 mínútum.

Gríska undrið, Giannis Antetokounmpo, minnti fólk líka á hvað hann getur. Hann bauð upp á þrefalda tvennu í sjö stiga sigri Milwaukee Bucks á Toronto Raptors, 118-111. Giannis skoraði 22 stig, tók 13 fráköst og gaf 10 stoðsendingar. Það sem meira er, hann brenndi ekki af skoti í leiknum.

Önnur úrslit

Houston Rockets 107-117 New Orleans Pelicans

Portland Trail Blazers 102-117 Los Angeles Clippers




Fleiri fréttir

Sjá meira


×