Rétt fyrir klukkan 22.30 varð umferðarslys á Suðurlandsvegi við Heiðmörk. Atvik voru þannig að ökumaður jeppa missti framhjólbarða undan bílnum en hjólbarðinn hafnaði á annarri bifreið sem var að koma úr gagnstæðri átt.
Bifreiðin varð fyrir miklum skemmdum og var fjarlægð með dráttarbíl. Engin slys urðu á fólki.
Upp úr klukkan 1 í nótt varð umferðarslys í vesturbæ Reykjavíkur þegar bíl var ekið á tvær kyrrstæðar og mannlausar bifreiðar. Ökumaður bílsins var fluttur á bráðamóttöku til aðhlynningar.
Tveir voru handteknir vegna gruns um akstur undir áhrifum, ein kona og einn karl.