Hlutabréfavísitalan OMXI10 hefur lækkað um sjö prósent frá 10. febrúar. Það sem af er degi hefur vísitalan hækkað um rúmlega eitt prósent. Verðbólga hefur verið þrálát, hún mælist nú 10,2 prósent og stýrivextir hafa hækkað frá 0,75 prósentum frá nóvember 2020 í 6,5 prósent í því skyni að kveða hana niður. Búist er við að þeir munu hækka enn frekar á morgun, miðvikudag.
Hinn 10. mars lokuðu bandarískir eftirlitsaðilar Silicon Valley Bank (SVB) í Kísildalnum og skömmu síðar Signature Bank í New York. Bankarnir voru leiðandi í þjónustu við frumkvöðlafyrirtæki. Því næst riðaði svissneski bankinn Credit Suisse til falls. Hinn svissneski UBS keypti keppinaut sinn í gær langt undir markaðsverðinu sem var fyrir helgi. Seðlabankar hafa ræst að nýju peningaprentvélar til að bankar lendi ekki í lausafjárvanda.
„Það eru mjög erfiðir tímar fyrir vaxtarfélög sem eru fjármagnsfrek,“ segir Snorri Jakobsson, framkvæmdastjóri greiningarfyrirtækisins Jakobsson Capital. „Stöðug arðgreiðslufélög eru málið nú enda hefur vaxtahækkun og fjármagnskortur mun minni áhrif hér í samanburði við vaxtarfyrirtæki. Á svona markaði myndast oft mikil tækifæri og má segja að það sé úlfamarkaður nú frekar en bjarnarmarkaður.“
Hann segir þegar það er skortur eru á lausu fé sé skynsamlegt að fjárfesta í félögum með stöðugan rekstur og góða langtímafjármögnun.
„Fasteignafélögin öll eru vel fjármögnuð til langstíma og eru miðað við markaðsvirði nú að skila fjárfestum allt að sex prósent arðgreiðsluhlutfalli sem er verðtryggt. Að auki ertu að fá frían valrétt ef gengi hækkar. Lægsta fermetraverðið á Íslandi er í Borgartúninu þar sem fermetraverðið er um 350 þúsund krónur. Einnig falla mörg arðgreiðslufélög undir þennan hatt og hafa þau lækkað mörg allhressilega og er arðgreiðsluhlutfall hátt þótt það sé ekki verðtryggt.“
Fram hefur komið í frétt hjá Innherja að Jakobsson Capital hafi verðmetið fasteignafélagið Reginn á 39,6 krónur á hlut. Það er 62 prósentum hærra en markaðsvirðið um þessar mundir.
Snorri segir að í hruninu var verð Norrænna banka frekar stöðugt og hækkaði gengi SHB (Svenska Handelsbanken).
„Bankar á Norðurlöndunum áttu það sameiginlegt árið 2008 að hafa gengið í gegnum bankakreppu 15 árum áður. Þeir voru því með íhaldssamari áhættustýringu, regluverk og hærra raunverulegt eiginfjárhlutfall en aðrir bankar. Það var helst í Danmörku þar sem urðu einhver vandræði en þar höfðu menn ekki gengið í gegnum bankakreppu 15 árum áður. Íslensku bankarnir eru stöðug arðgreiðslufélög og ágætlega fjármagnaðir og standa mjög styrkum fótum jafnvel þótt það verði bankahrun á alþjóðavísu, líkt og Norrænu bankarnir fyrir 15 árum,“ segir hann.
Stöðug arðgreiðslufélög eru málið nú enda hefur vaxtahækkun og fjármagnskortur mun minni áhrif hér í samanburði við vaxtarfyrirtæki.
Í svörum við fyrirspurn Innherja undirstrika allir viðskiptabankarnir fjórir hér á landi – Arion, Íslandsbanki, Kvika og Landsbankinn – að staða þeirra sé allt önnur enda beiti enginn bankanna sömu aðferð og SVB við að meta virði skuldabréfa í bókum sínum. Í öllum tilfellum fullyrða bankarnir að þeir séu því ekki með neitt óinnleyst tap vegna skuldabréfaeigna. Ávöxtunarkrafa íslenskra ríkisbréfa hefur hækkað verulega síðustu misseri samhliða aukinni verðbólgu og vaxtahækkunum Seðlabankans – og að sama skapi hefur markaðsvirði bréfanna því lækkað.
Fram kemur í nýlegri greiningu frá Jakobsson Capital að hlutabréfamarkaðurinn hafi verið „hauslaus“ frá miðjum febrúar eftir ágætis byrjun á árinu.
„Hagnaður Bónus eða Krónunnar verður ekki minni þótt lítill rafmyntabanki í Bandaríkjunum fari í þrot. Markaðsvirði fasteignafélaganna er orðið svo lágt að fermetraverðið er farið að nálgast 350 þúsund krónur fermetrann. Eitthvað sem fjölbýli á Raufarhöfn eða kjallari á Ólafsfirði eiga erfitt að keppa við,“ sagði greinandi.
Stýrivaxtahækkanir sem farið var í til að kveða niður vaxandi verðbólgu urðu SVB að falli. Bankinn tók við innlánum þegar vextir voru lágir og fjárfesti í löngum ríkisskuldabréfum. Þegar stýrivextir hækkuðu hríðféllu skuldabréfin í verði sem leiddi til mikils tap. Innstæðueigendur tóku háar fjárhæður af reikningum sínum hjá Signature því þeir óttuðust að bankinn glímdi líka við vanda því hann hafði átt viðskipti tengd rafmyntum. Signature stóðst ekki áhlaupið, því gripu stjórnvöld inn í og lokuðu bankanum.
SVB, sem var sextándi stærsti banki Bandaríkjanna með eignir upp á liðlega 210 milljarða dala um síðustu áramót, hafði vaxið hratt á tímum faraldursins þegar mikið fjármagn flæddi einkum inn í tækni- og sprotafyrirtæki í Kísildalnum sem bankinn þjónustaði. Innstæður SVB margfölduðust – þær námu um 175 milljörðum dala í lok síðasta árs – en á móti þeim skuldum hafði bankinn fest stóran hluta eignasafnsins í löngum ríkisskuldabréfum á tímum þegar vextir voru um eða undir einu prósenti.