Innherji

Kísilverið á Bakka fór „verulega undir núllið“ í lok síðasta árs

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Orkuþörf kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, miðað við full afköst, er um 52 megavött af afli á ári.
Orkuþörf kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, miðað við full afköst, er um 52 megavött af afli á ári. VÍSIR/VILHELM

Kísilverið á Bakka var rekið með verulegu tapi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs vegna lítillar eftirspurnar eftir kísilmálmi og aukinnar alþjóðlegrar samkeppni. Þýska móðurfélagið bindur vonir við að minnkandi útflutningur frá Kína muni styðja við verð kísilmálms á komandi mánuðum.

Í nýbirtu árshlutauppgjöri þýska félagsins PCC SE, aðaleiganda kísilversins, kemur fram að eftirspurn eftir kísilmálmi hafi verið lítil á fjórðungnum og á sama tíma hafi samkeppni við framleiðslu í Kína og Brasilíu harðnað. Kom fyrir að verð kísilmálms fór niður fyrir framleiðslukostnað í Evrópu, sem fór vaxandi á árinu 2022 vegna skarpra hækkana á orku- og hrávöruverði.

„Í ljósi ofangreindra þrátt fór kísilverið á Bakka verulega undir núllið á fjórða ársfjórðungi. […] Þrátt fyrir að kísilverið á Íslandi hafi forskot á önnur kísilver í Evrópu þegar kemur að raforkukaupum var slökkt á einum ofni í lok árs 2022 í því skyni að minnka birgðir sem höfðu safnast upp. Á meðan er unnið að því að fínpússa framleiðsluferla,“ segir í uppgjöri PCC.

Íslenska kísilmálmsverksmiðjan var einnig rekin með tapi á þriðja ársfjórðungi sökum lækkandi heimsmarkaðsverð kísilmálms og hækkandi aðfangakostnaðar. Kol eru meðal hráefna kísilmálmframleiðslu, en eftirspurn eftir kolum hafði aukist hratt í Evrópu í kjölfar ræsingar gamalla koluorkuvera í Þýskalandi og víðar á meginlandinu.

Gestur Pétursson, forstjóri PCC BakkiSilicon.PCC

„Hið jákvæða er að innkaupaverð á kolum og öðrum hráefnum er nú í lækkunarfasa. Og það eru merki um að eftirspurn eftir kísilmálmi í Kína muni vaxa á ný en það gæti leitt til minnkunar á framboði kínverskra afurða í Evrópu sem skilar sér í hækkun á afurðaverði,“ segir í uppgjörinu. Hagfelld verðþróun árið 2021, sem helgaðist meðal annars af minnkandi útflutningi frá Kína, leiddi til þess að kísilverið á Bakka skilaði jákvæðri rekstrarafkomu á því ári. 

PCC á 86,5 prósent hlut í kísilverinu en Bakkastakkur, sem er fjárfestingafélag í eigu Íslandsbanka og íslenskra lífeyrissjóða, fer með 13,5 prósenta hlut. Fimm stærstu lífeyrissjóðirnir í hluthafahópi Bakkastakks færðu hlut sinn í félaginu niður um 75 til 100 prósent á árinu 2020.

Innherji greindi frá því í apríl 2022 að stjórnendur Bakka hefðu til skoðunar að tvöfalda framleiðslugetuna á næstu árum í ljósi batnandi rekstrar og markaðsaðstæðna. Verksmiðjan, sem býr yfir tveimur ljósbogaofnum, var hönnuð með framtíðarstækkun í huga. Framleiðslugetan er um 32 þúsund á ári en heimilt er, samkvæmt starfsleyfinu frá Umhverfisstofnun, að framleiða 66 þúsund tonn í fjórum ljósbogaofnum.

Orkuþörf kísilmálmverksmiðju PCC á Bakka, miðað við full afköst, er um 52 megavött af afli á ári. Landsvirkjun sér PCC fyrir rafmagni, en jarðhitavirkjunin á Þeistareykjum var meðal annars byggð til að útvega raforku til Bakka. Líkt og í öðrum stórnotendaraforkusamningum Landsvirkjunar er PCC skuldbundið til að standa skil á greiðslum til Landsvirkjunar, þrátt fyrir að starfsemi verksmiðjunnar stöðvist að hluta eða í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×