Handbolti

Tandri úlnliðsbrotinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tandri Már Konráðsson í leiknum gegn Aftureldingu þar sem hann meiddist.
Tandri Már Konráðsson í leiknum gegn Aftureldingu þar sem hann meiddist. vísir/diego

Tandri Már Konráðsson, handboltamaður í Stjörnunni, er úlnliðsbrotinn og verður frá keppni næstu vikurnar.

Tandri brotnaði á vinstri hendi í leik Stjörnunnar og Aftureldingar í undanúrslitum Powerade-bikarsins á fimmtudaginn fyrir viku. Hann staðfesti þetta í hlaðvarpi Seinni bylgjunnar í dag.

„Þetta gerðist einhvern tímann í fyrri hálfleik. Ég hélt ég hefði bara tognað í úlnliðnum og teipaði þetta bara. Svo varð ég verri og verri og lét á endanum kíkja á þetta á laugardaginn. Þá kom í ljós að ég er með brot í úlnliðnum,“ sagði Tandri sem er í gifsi og verður það í um fjórar vikur.

Þetta er mikið áfall fyrir Stjörnuna enda Tandri fyrirliði Stjörnunnar og lykilmaður í liðinu, ekki síst í vörninni. Hann vonast þó til að tímabilinu sé ekki lokið hjá sér.

„Ég held ég missi allavega af fyrsta leik í átta liða úrslitum. Ég vonast til að geta byrjað að spila um leið og ég losna úr gifsinu.“

Stjarnan er í 6. sæti Olís-deildarinnar með 21 stig. Næsti leikur liðsins er gegn ÍR annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×