Körfubolti

LeBron og Durant gætu mæst í fyrsta sinn síðan 2018

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kevin Durant var enn leikmaður Golden State Warriors þegar hann mætti LeBron James síðast.
Kevin Durant var enn leikmaður Golden State Warriors þegar hann mætti LeBron James síðast. Thearon W. Henderson/Getty Images

Phoenix Suns og Los Angeles Lakers mætast í leik sem gæti skipt sköpum rétt áður en deildarkeppni NBA-deildarinnar lýkur. Það gæti farið svo að það yrði fyrsti leikurinn sem Kevin Durant og LeBron James spila gegn hvor öðrum síðan 2018.

Bæði Durant og LeBron eru á meiðslalistanum sem stendur. Það er þó talið að báðir leikmenn muni ná nokkrum leikjum áður en úrslitakeppnin í NBA hefst. Lakers þarf á LeBron að halda til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni til að byrja með og svo til að hann sé kominn á flug þegar úrslitakeppnin loks hefst.

Suns eru í aðeins betri stöðu en Durant hefur lítið spilað í vetur og vill fólk í Phoenic eflaust að stjarna liðsins nái nokkrum skotum á körfuna áður en úrslitakeppnin fer af stað.

Helstu NBA-vefréttir vestanhafs spá því að báðir leikmenn verði mættir út á völl áður en deildarkeppninni lýkur. Báðir ættu raunar að vera leikfærir þegar liðin mætast að nýju – Lakers vann Suns í gær, fimmtudag – þann 8. apríl næstkomandi. Um væri að ræða næstsíðasta leik beggja liða í deildarkeppninni. 

LeBron segir fólki þó að anda inn og anda út.

Miðað við hvernig staðan í Vesturdeildinni er núna er í raun öruggt að leikur liðanna muni hafa áhrif á hvar liðin enda í töflunni og hvaða liði þau mæta í umspili eða úrslitakeppni. Stóra spurningin er hvort stærstu stjörnur liðanna verði með eða upp í stúku.

Suns eru sem stendur í 4. sæti með 38 sigra og 34 töp. Los Angeles Clippers er sæti neðar með sama sigurhlutfall en fleiri spilaða leiki, þau mætast í síðustu umferð deildarkeppninnar.

Þar á eftir kom Golden State Warriors (38-36), Minnesota Timberwolves (37-37), Dallas Mavericks (36-37), Pelicans (36-37), Lakers (36-37), Oklahoma City Thunder (36-37) og Utah Jazz (35-37).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×