Fótbolti

Tvær stoðsendingar Guðnýjar þegar Milan missti niður forystu í lokin

Smári Jökull Jónsson skrifar
Guðný Árnadóttir var dugleg að mata liðsfélaga sína í dag.
Guðný Árnadóttir var dugleg að mata liðsfélaga sína í dag. Vísir/Getty

Guðný Árnadóttir gaf tvær stoðsendingar þegar AC Milan gerði 3-3 jafntefli við Fiorentina í ítölsku deildinni í knattspyrnu í dag. Alexandra Jóhannsdóttir var í liði gestanna.

Lið AC Milan og Fiorentina eru bæði í keppni efstu fimm liða deildarinnar en Roma og Juventus hafa skilið sig frá hinum liðunum þremur og aðeins munaði einu stigi á Inter annars vegar og AC Milan og Fiorentina hins vegar fyrir leik dagsins.

Guðný Árnadóttir og Alexandra Jóhannsdóttir voru báðar í byrjunarliðum sinna liða í dag og það voru heimakonur í AC Milan sem byrjuðu betur og komust í 2-0 í fyrri hálfleik.

Valery Vigilucci kom liðinu í 1-0 strax á þriðju mínútu eftir stoðsendingu Guðnýjar og Kosovare Asllani tvöfaldaði forystuna á 21. mínútu og aftur var það Guðný sem átti stoðsendinguna.

Síðustu tuttugu mínútur leiksins voru svo heldur betur fjörugar. Veronica Boquete minnkaði muninn fyrir Fiorentina á 69. mínútu en Martina Piemonte kom AC Milan í 3-1 á 74. mínútu og brekkan orðin brött fyrir gestina.

Pauline Hammarlund minnkaði hins vegar muninn tveimur mínútum fyrir leikslok og á fimmtu mínútu uppbótartíma jafnaði Boquete fyrir Fiorentina. Ótrúlegar lokamínútur. Guðný Árnadóttir fór af velli í hálfleik í dag en Alexandra Jóhannsdóttir lék allan leikinn fyrir Fiorentina og nældi sér í gult spjald.

Lokatölur 3-3 og liðin jafna því Inter að stigum í töflunni, öll eru þau með 35 stig í 3.- 5. sæti. Roma er efst með 51 stig og Juventus í öðru sæti með 46 stig en Roma og Inter hafa leikið einum leik minna en hin þrjú.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×