Körfubolti

Rúnar um undan­úr­slitin: „Það verður stríð um Reykja­nes­bæ sem enginn má missa af“

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Rúngar Ingi er vægast sagt spenntur fyrir einvígi Njarðvíkur og Keflavíkur í undanúrslitum Subway-deildar kvenna.
Rúngar Ingi er vægast sagt spenntur fyrir einvígi Njarðvíkur og Keflavíkur í undanúrslitum Subway-deildar kvenna. Vísir/Snædís Bára

„Tilfinningin er rosalega góð,“ sagði Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, eftir magnaðan sigur gegn Val í Subway-deild kvenna í körfubolta í kvöld. Lokaumferðin fór fram og sigur Njarðvíkur, sá 7. í röð, sendi Val niður í 3. sætið. Íslandsmeistarar Njarðvíkur koma þar á eftir og eru á leið í úrslitakeppni Subway-deildarinnar ásamt Keflavík, Haukum og Val.

Þegar horft var á töfluna fyrir leik þá skipti leikurinn engu máli fyrir Njarðvík, þær voru að fara að enda í fjórða sæti sama hvað gerðist. En það var augljóst á meðan leik stóð að það skipti miklu máli fyrir liðið að vinna leikinn. Og hvernig þær unnu leikinn – fóru í gegnum miklar áskoranir til að gera það – gæti reynst mjög dýrmætt í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Valur var með öll tök á vellinum í fyrri hálfleik, frá byrjun þangað til að hálfleikshléið tók við. Njarðvíkingar náðu engum takti og það gekk lítið sem ekkert upp. Í öðrum leikhluta tók Rúnar leikhlé sem vakti athygli þar sem hann og Aliyah Collier, stjörnuleikmaður liðsins, skiptust á að garga á hvort annað. Það var hiti á bekknum en mögulega skipti það sköpum því eftir því sem leið á þá breyttu þær gremjunni í gleði.

„Þetta var erfiður leikur. Fyrri hálfleikurinn var erfiður og við náðum aldrei sóknartakti. Það voru miklar andlegar áskoranir hjá okkur. Við erum búnar að spila betur og betur, en núna fór allt í baklás. Það tekur á andlegu hliðina. Við erum búnar að vera vinna í því í allan vetur. Það kom hökt, en þá er gott að hreinsa út og öskra á hvort annað, kveikja á okkur öllum. Þá eru allir meira en tilbúnir; frá byrjunarliði í aftasta mann á bekknum upp í okkur þjálfarana. Þetta er einn af þessum leikjum sem ég held að sé búinn að gera okkur að betra körfuboltaliði,“ sagði Rúnar en í kjölfarið var hann spurður út í leikhléið.

„Við erum í þessu saman, þannig er það. Ég er að biðja þær um að tjá sig í staðinn fyrir að birgja hlutina inni.“

„Körfubolti snýst um að leysa vandamál í 40 mínútur. Ef við tölum ekki saman og útkljáum hlutina, þá náum við engum árangri. Ég garga á þær og reyni að kveikja á þeim, þá garga þær á mig til baka. Við tökumst í hendur og gefum hvort öðru faðmlag þegar leikurinn er búinn. Þannig eru íþróttir. Ég held að þetta sé stórt skref fyrir okkur líka; að snúa svona andlegri stöðu í að verða allar saman ein heild. Við vinnum frábært Valslið á útivelli og gerum það með stemningu og liðsheild. Það er ótrúlega sterkt.“

Það sýndi sig í kvöld að karakterinn sem býr í þessu Njarðvíkurliði er mikill. „Ég er ótrúlega sáttur með karakterinn og það er það sem ég ætla að tala um inn í klefa,“ sagði Rúnar og bætti við:

„Þetta er leikur áhlaupa. Við náðum engu áhlaupi í fyrri hálfleik en um leið og við fengum áhlaup í byrjun seinni hálfleiks þá fundum við allavega einhvern takt. Þó þær skori nokkrar körfur á okkur þá leið mér strax betur. Ég er ótrúlega heppinn þjálfari að vera með frábærar körfuboltakonur í liðinu mínu. Þær hitta oftar en þær klikka – yfirleitt – og það var þannig í seinni hálfleik. Við erum ósigraðar í fjórðu umferðinni og förum brattar í úrslitakeppninni.“

Njarðvík er ríkjandi Íslandsmeistari. Deildarkeppnin var ekki stórkostleg hjá liðinu en þjálfarinn hefur trú á því að þær geti endurtekið leikinn frá því í fyrra. Njarðvík mætir Keflavík í nágrannaslag í undanúrslitunum en það fyrir fram er það einvígi af bestu gerð.

„Að sjálfsögðu trúi ég því að við getum orðið Íslandsmeistarar. Ef ég gerði það þá myndi ég bara fara að gera eitthvað annað – horfa á fótbolta með konunni minni í útlöndum eða eitthvað. Við erum í þessu til að vinna. Við erum búnar að tala um það allt tímabilið að það verður enginn Íslandsmeistari í október. Þetta snýst um að setja púslin saman þegar það skiptir máli. Mér líður vel núna en það er rosalega áskorun framundan gegn Keflavík sem er frábært körfuboltalið.“

„Það verður stríð um Reykjanesbæ sem enginn má missa af,“ sagði þjálfari Njarðvíkur að lokum áður en hann hélt heim á leið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×