Skoðun

Hvað með um­sækj­endur, Bjarni Ben?

Derek T. Allen skrifar

Í gær á Alþingi Íslendinga var vantrauststillögu á dómsmálaráðherra hafnað af meirihluta Alþingis. Umræðan um vinnubrögð ráðherrans hefur verið sérlega hituð undanfarið og að miklu leyti hefur gleymst að hafa í huga hagsmuni umsækjanda um ríkisborgararétt til Alþingis. Þetta er það eina sem ég get sammælst fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni um. Úr ræðustól gaf hann til kynna að flestir umsækjendur mættu bíða eftir niðurstöðu vegna þess að þau væru komin með atvinnuleyfi eða annars konar dvalarleyfi á milli handa. Þetta er útúrsnúningur og sem einn af þeim 136 sem sótti um (og hlaut) ríkisborgararétt í þeirri umferð þykir mér það afar mikilvægt að koma nokkrum hlutum á hreint.

Eins og nokkrir ítrekuðu upp í pontu bendi ég einnig á það að um lögbrot er að ræða. Það skiptir nákvæmlega engu máli hvernig aðstæður hvers umsækjanda voru á þeim tíma sem sótt var um. Dómsmálaráðherra kom í veg fyrir afhendingu gagna frá Útlendingastofnun til Allsherjar- og menntamálanefnd þingsins og hindraði þingið í að sinna hlutverki sínu. Hæstvirtur ráðherra braut gegn 51. gr. þingskaparlaga og hindraði þannig störf þingsins. Ef honum líkar ekki tiltekin ákvæði laganna er það gott og gilt, en það kallar á lagabreytingu frekar en að fara eftir eigin túlkun sem stenst enga skoðun.

Einnig vil ég varpa ljósi á hversu mikið liggur á lausu lofti á meðan beðið er eftir niðurstöðu. Allt veltur á þessari ákvörðun. Atvinnumöguleikar, fjölskyldulífið, og framtíðin öll ráðast af því hvort þingið telji þig verðskulda ríkisborgararétt. Þó að einstaklingur sé kominn með dvalarleyfi af einhverju tagi er það ekki þessi gullni miði sem fjármálaráðherra virðist halda að það sé, enda geta forsendur dvalar á landinu breyst skyldi maður útskrifast úr námi, slíta hjúskap, missa vinnuna, o.s.frv. Ég var sjálfur á leiðinni út úr minni vinnu og fékk loksins ríkisborgararétt í hendur u.þ.b. þremur vikum áður en ég hefði átt að sækja um nýtt dvalarleyfi (og vonandi fá það veitt) eða yfirgefa landið. Ekki var hægt að bíða í mínu tilviki og ég get auðveldlega ímyndað mér að önnur voru í miklu verri stöðu, þar sem ég nýt þeirra forréttinda að koma frá lýðræðislegu landi. (Dómsmálaráðuneytið veit þetta nú þegar þar sem upplýsingar um mig og aðra umsækjendur láku til þeirra frá Útlendingastofnun).

Vissulega voru sumir umsækjendur afslappaðir, en það að maður dvelji ekki ólöglega í landinu þýðir ekki að lífið sé bara hress ekkert stress. Þessi fullyrðing sýnir hversu fáfróður meirihluti okkar þings er um raunveruleika þessara umsækjanda. Það að fjármálaráðherra skuli þykjast láta sig innflytjendur varða með þessum hætti er næstum eins skammarlegt og framkoma dómsmálaráðherra í þessu máli. „Hvað með umsækjendur?“ spyr hann vitandi að honum var sama um okkur þangað til það hentaði honum.

Okkar þingfulltrúar hafa tekið skýra afstöðu, þess vegna skal ég líka. Sem umsækjandi harma þessa taktík fjármálaráðherra og fordæmi þau skilaboð sem þingið hefur sent til mín og allra annarra umsækjanda að boðlegt sé að brjóta á okkur.

Höfundur er bara einhver útlendingur sem veit ekkert hvað hann er að tala um.




Skoðun

Sjá meira


×