„Í dag er þetta er orðið pínulítið snúið af því að þú þarft að fara mjög varlega, sem gerir grínleikurum erfitt fyrir. Fegurðin í gríni er að við getum gert grín að okkur sjálfum og gert grín að lífinu,“ segir Aniston í viðtali við tímaritið Variety.
Hún segir að áður fyrr hafi tíðkast að gera grín að alls konar fólki og allir hefðu hlegið að því. „Þetta snerist bara um að varpa ljósi á það hve fáránlegt fólk getur verið, en núna megum við ekki gera það lengur,“ segir hún.
Þættirnir Friends hófu göngu sína árið 1994 og voru sýndir til ársins 2004. Um er að ræða eina vinsælustu gamanþætti sem nokkurn tímann hafa verið gerðir. Á síðustu árum hafa þættirnir þó sætt töluverðri gagnrýni fyrir skort á margbreytileika.

Yrði gert öðruvísi ef þættirnir myndu snúa aftur í dag
Leikkonan Lisa Kudrow, sem fór með hlutverk Phoebe í Friends, lét hafa það eftir sér fyrir nokkrum árum að ef þættirnir myndu snúa aftur í dag myndi leikarahópurinn ekki aðeins samanstanda af hvítu fólki. Hún segir þó að á sínum tíma hafi það ekki verið hlutverk Davids Crane og Mörtu Kauffman, höfunda þáttanna, að segja sögur hópa sem þau tilheyrðu ekki og þekktu ekki sjálf.
„Þau höfðu ekkert með það að gera að skrifa um það hvernig það er að vera þeldökk manneskja,“ sagði Kudrow í viðtali á sínum tíma en höfundar þáttanna eru hvítir.

„Megum ekki taka okkur svona alvarlega“
Aniston segist vera vel meðvituð um það að umhverfið sé breytt og að húmorinn í þáttunum geti því stuðað.
„Það er komin upp heil kynslóð af fólki, krökkum, sem eru núna að horfa á gamla Friends þætti og móðgast yfir þeim. Það er eitthvað sem var aldrei ætlunin en svo eru hlutir sem við hefðum kannski mátt huga betur að, en ég held að það hafi ekki verið sama viðkvæmnin þá eins og er núna,“ segir Aniston.
„Það þurfa allir grín! Heimurinn þarf húmor! Við megum ekki taka okkur svona alvarlega. Sérstaklega í Bandaríkjunum. Við erum alltof klofin.“