Fótbolti

Mourinho stöðvaði rasíska níðsöngva stuðningsmanna Roma

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourinho og strákarnir hans í Roma fögnuðu sigri á Sampdoria í gær.
José Mourinho og strákarnir hans í Roma fögnuðu sigri á Sampdoria í gær. getty/Silvia Lore

José Mourinho gerði Dejan Stankovic vinargreiða í leik Roma og Sampdoria í ítölsku úrvalsdeildinni í gær. Mourinho stöðvaði nefnilega rasíska níðsöngva stuðningsmanna Roma í garð Stankovic.

„Ég gerði þetta fyrir frábæran mann og frábæran vin. Hann á börn og fjölskyldu,“ sagði Mourinho eftir leikinn á Ólympíuleikvanginum í Róm. „Stuðningsmenn okkar eru frábærir en þeir snerta ekki vini mína.“

Mourinho og Stankovic þekkjast vel en Portúgalinn þjálfaði Serbann hjá Inter á árunum 2008-10. Á þeim tíma vann Inter ítalska meistaratitilinn í tvígang, bikarkeppnina einu sinni og Meistaradeild Evrópu einu sinni.

Roma vann Sampdoria með þremur mörkum gegn engu í gær. Gini Wijnaldum, Paulo Dybala (víti) og Stephan El Shaarawy skoruðu mörk Rómverja.

Roma er í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með fimmtíu stig, jafn mörg og Inter sem er í sætinu fyrir ofan. Sampdoria er aftur á móti í nítjánda og næstneðsta sæti deildarinnar með fimmtán stig, tíu stigum frá öruggu sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×