Innlent

Stressaður Íslendingur gripinn með mikið magn fíkniefna í Þýskalandi

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Efnin voru í flöskum utan af hreinsiefni.
Efnin voru í flöskum utan af hreinsiefni. Bundespolizeiinspektion Bad Bentheim

39 ára íslenskur karlmaður var handtekinn í bænum Schüttorf í Þýskalandi þann 25.febrúar síðastliðinn. Reyndist hann vera tæp átta kíló af fljótandi amfetamíni í fórum sínum.

Í tilkynningu frá rannsóknarlögreglunni í Bad Bentheim kemur fram að maðurinn hafi komið keyrandi frá Hollandi til Þýskalands. Var hann stöðvaður á landamærunum.

Þegar fulltrúar landamæralögreglunnar spurðu hann hvort hann væri með ólöglegan varning eða efni meðferðis neitaði hann að svara. Fram kemur að maðurinn hafi litið út fyrir að vera afar „stressaður og óöruggur “ og því hafi fulltrúar lögreglunnar ákveðið að leita í bílnum. 

Í kjölfarið fundust tvær grunsamlegar flöskur í fótarými bílsins. Um var að ræða flöskur utan af hreinsiefni en grunur vaknaði um að þær innihéldu fljótandi amfetamín. Sá grunur reyndist á rökum reistur en samtals vógu flöskurnar rúmlega átta kíló.

Maðurinn var í kjölfarið handtekinn og færður fyrir dómara daginn eftir. Hann var í kjölfarið úrskurðaður í varðhald.

Fram kemur að rannsóknardeild tollgæslunnar í Essen fari með rannsókn málsins og að rannsóknin sé nú á lokastigi.

Í samtali við Vísi staðfestir Sveinn H. Guðmarsson fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins að borgaraþjónustunni sé kunnugt um málið. Ekki sé þó hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×